Vegna ágreinings Árna M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, og Bo Fernholm, formanns Alþjóðahvalveiðiráðsins, birtir Morgunblaðið aðildarskjöl Íslands að ráðinu frá því á síðasta ári og á þessu ári.
Í aðildarskjali Íslands árið 2001 segir orðrétt:
"Vér höfum séð og athugað alþjóðasamning um stjórnun hvalveiða sem gerður var í Washington 2. desember 1946 og bókun við samninginn sem gerð var í Washington 19. nóvember 1956 og lýsum hér með yfir því að Ísland gerist með skjali þessu aðili að samningum og bókuninni með fyrirvara um e-lið 10. mgr. fylgiskjalsins með samningnum. Fyrirvarinn er óaðskiljanlegur hluti aðildarskjalsins."
Undir aðildarskjalið rita handhafar forsetavalds.
"Ég hef séð og athugað alþjóðasamning um stjórnun hvalveiða sem gerður var í Washington 2. desember 1946 og bókun við samninginn sem gerð var í Washington 19. nóvember 1956 og lýsi hér með yfir því að Ísland gerist með skjali þessu aðili að samningnum og bókuninni með fyrirvara um e-lið 10. mgr. fylgiskjalsins með samningnum. Fyrirvarinn er óaðskiljanlegur hluti aðildarskjalsins.
Þrátt fyrir fyrrgreindan fyrirvara munu íslensk stjórnvöld ekki heimila íslenskum skipum að stunda hvalveiðar í atvinnuskyni á meðan framgangur er í samningaviðræðum innan Alþjóðahvalveiðiráðsins um endurskoðað stjórnkerfi. Þetta gildir þó ekki ef svonefndur núllkvóti fyrir hvalveiðar í atvinnuskyni, sem kveðið er á um í e-lið 10. mgr. fylgiskjalsins, er ekki felldur úr gildi innan hæfilegs tíma eftir að lokið hefur verið við hið endurskoðaða stjórnkerfi.
Undir engum kringumstæðum verða hvalveiðar í atvinnuskyni heimilaðar á Íslandi nema á traustum vísindalegum grundvelli og undir virkri stjórn og eftirliti."
Undir aðildarskjalið ritar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.