Munnbiti af hvalkjöti er hættulegur

Svo mikið magn kvikasilf­urs er að finna í því hval­kjöti sem Jap­an­ar leggja sér til munns að jafn­vel hinn minnsti munn­biti get­ur valdið fólki heilaskaða. Þetta kem­ur fram í grein sem senn verður birt í breska vís­inda­rit­inu New Scient­ist.

Rann­sókn­ir jap­anskra vís­inda­manna við há­skól­ann í Hokkaido benda til að magn kvikasilf­urs í hverju grammi hvallifr­ar sé 900-falt yfir hættu­mörk­um. Var ekk­ert þeirra sýna, sem vís­inda­menn­irn­ir skoðuðu, und­ir hættu­mörk­um og raun­ar voru tvö þeirra níu þúsund sinn­um yfir hættu­mörk­un­um.

Vís­inda­menn­irn­ir Tetsuya Endo, Koichi Haraguchi og Masakatsu Sakata segja að þetta þýði að 60 kg ein­stak­ling­ur sem gæði sér á ein­um hval­kjöts­bita hafi þar með inn­byrt meira magn kvikasilf­urs en talið er óhætt að inn­byrða á heilli viku skv. stöðlum Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar (WHO).

Það eru ekki ný tíðindi að kvikasilf­ur sé að finna í hvöl­um og höfr­ung­um en það kem­ur á óvart hversu mikið magnið er í raun og veru. Hvetja þau Endo, Haraguchi og Sakata japönsk stjórn­völd til að herða mjög regl­ur um hval­kjötsát og skora sér­stak­lega á þungaðar kon­ur að hætta ekki á fóst­urskaða með því að gæða sér á hval­kjöti.

Par­ís. AFP.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: