Svo mikið magn kvikasilfurs er að finna í því hvalkjöti sem Japanar leggja sér til munns að jafnvel hinn minnsti munnbiti getur valdið fólki heilaskaða. Þetta kemur fram í grein sem senn verður birt í breska vísindaritinu New Scientist.
Rannsóknir japanskra vísindamanna við háskólann í Hokkaido benda til að magn kvikasilfurs í hverju grammi hvallifrar sé 900-falt yfir hættumörkum. Var ekkert þeirra sýna, sem vísindamennirnir skoðuðu, undir hættumörkum og raunar voru tvö þeirra níu þúsund sinnum yfir hættumörkunum.
Vísindamennirnir Tetsuya Endo, Koichi Haraguchi og Masakatsu Sakata segja að þetta þýði að 60 kg einstaklingur sem gæði sér á einum hvalkjötsbita hafi þar með innbyrt meira magn kvikasilfurs en talið er óhætt að innbyrða á heilli viku skv. stöðlum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Það eru ekki ný tíðindi að kvikasilfur sé að finna í hvölum og höfrungum en það kemur á óvart hversu mikið magnið er í raun og veru. Hvetja þau Endo, Haraguchi og Sakata japönsk stjórnvöld til að herða mjög reglur um hvalkjötsát og skora sérstaklega á þungaðar konur að hætta ekki á fósturskaða með því að gæða sér á hvalkjöti.
París. AFP.