Færeysk stjórnvöld munu senn taka ákvörðun um það hvort hvalveiðar í atvinnuskyni verða hafnar að nýju en Færeyingar hafa ekki stundað slíkar veiðar frá lokum níunda áratugarins, að því er fram kemur á fréttavefnum Skip.is.
Árlega eru 1000 grindhvalir drepnir við Færeyjar en þær veiðar eru ekki bannaðar af Alþjóðahvalveiðiráðinu. Færeyingar líti því ekki á þær veiðar sem veiðar í atvinnuskyni enda fari allt kjötið af dýrunum til heimabrúks og án gjaldtöku. Grindhvalastofninn sé einnig það sterkur að þessar veiðar hafi engin áhrif á stofnstærðina.
Með veiðum í atvinnuskyni er einkum horft til veiða á hrefnu og að sögn Jörgen Niclasen sjávarútvegsráðherra Færeyja er nú aðeins beðið eftir niðurstöðum rannsókna á því hvaða hvalastofnar þoli sjálfbærar veiðar. Lagt verði til að þeir stofnar sem þoli veiðar verði nýttir.