Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra tilkynnti þingheimi í upphafi þingfundar á Alþingi í gær að Íslendingar hefðu fengið aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Sú niðurstaða fékkst á aukafundi ráðsins í Cambridge í Bretlandi í gær.
Ráðherra sagði að við aðildina hefðu Íslendingar sett fyrirvara við hvalveiðibann hvalveiðiráðsins en jafnframt skuldbundið sig til að hefja ekki hvalveiðar í atvinnuskyni fyrr en 2006.
"Ég kveð mér hljóðs til að segja háttvirtum þingheimi frá því að Ísland var í dag viðurkenndur sem aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu á ný með fyrirvara við bann við hvalveiðum," sagði ráðherra í upphafi þingfundar í gær.
Ráðherra sagði að það væri grundvallaratriði fyrir Ísland að vera aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu til að geta hafið hvalveiðar að nýju. "Með því að vera með viðurkenndan fyrirvara erum við að horfa til langtíma hagsmuna Íslands í hvalveiðum í atvinnuskyni. Hins vegar opnar aðildin fyrir okkur möguleika á því að hefja hvalveiðar í vísindaskyni sem við höfðum ekki áður en við gengum inn í Alþjóðahvalveiðaráðið og þar með höfum við engu fórnað í því að geta hafið hvalveiðar, þetta er spurning um hvers konar hvalveiðar við munum hefja."
Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og Árni Steinar Jóhannsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar -græns framboðs, fögnuðu aðild Íslendinga að Alþjóðahvalveiðiráðinu en Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var ekki sáttur við það að Íslendingar gætu ekki hafið hvalveiðar í atvinnuskyni fyrr en árið 2006.