Íslendingar fengu aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu á aukafundi ráðsins sem hófst í Cambridge í Englandi í gær.
Boðað var til fundarins í Englandi til að ræða frumbyggjakvóta Alaska og Rússlands.
Íslensk stjórnvöld ákváðu hinsvegar að láta reyna enn á ný á aðildarumsókn sína að ráðinu, en það hafnaði aðild Íslands á aðalfundi sínum í fyrra og aftur í ár á þeirri forsendu að Íslendingar vildu gera fyrirvara við hvalveiðibannið sem hefur verið í gildi frá árinu 1986. Íslendingar gengu úr hvalveiðiráðinu 1992, en í júní 2001 var ákveðið að ganga aftur í ráðið með ákveðnum fyrirvara um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni.
Íslendingar afhentu Bandaríkjunum, sem eru vörsluaðili hvalveiðisamningsins, nýja aðildarumsókn sl. föstudag. Hún var líkt og áður með fyrirvara um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni. Þó var gerð sú breyting á fyrirvaranum að Ísland skuldbindur sig til að hefja ekki veiðar í atvinnuskyni fyrir árið 2006. Þá kveður fyrirvarinn á um að meðan framgangur er í samningaviðræðum um endurskoðað stjórnkerfi hvalveiða eftir árið 2006, muni Ísland ekki hefja veiðar í atvinnuskyni. Sé hinsvegar ekki framgangur í viðræðunum eru Íslendingar ekki bundnir af hvalveiðibanninu samkvæmt fyrirvaranum. Fyrirvarinn takmarkar hinsvegar ekki möguleika Íslendinga á að hefja vísindaveiðar.
Deilur urðu við upphaf fundarins í gær og fóru fram fjölmargar atkvæðagreiðslur um hvernig afgreiða ætti ný aðildarskjöl Íslendinga. Að lokum lagði Svíinn Bo Fernholm, formaður ráðsins, fram tillögu um að niðurstaða fundarins í Japan frá því í maí yrði staðfest og Ísland hefði þannig aðeins áheyrnaraðild að ráðinu. Tillagan var hinsvegar felld með 19 atkvæðum gegn 18. Þau ríki sem greiddu atkvæði gegn tillögu formannsins voru Antiqua & Barbuda, Benín, Danmörk, Dóminíka, Finnland, Grenada, Gínea, Ísland, Japan, Kína, Noregur, Palau, Rússland, St. Kitts & Nevis, St. Lusia, Salomon eyjar, Suður-Kórea, Svíþjóð og Sviss. Þau ríki sem greiddu atkvæði með tillögunni voru Ástralía, Austurríki, Bandaríkin, Brasilía, Bretland, Chile, Frakkland, Holland, Írland, Ítalía, Mexíkó, Mónakó, Nýja Sjáland, Perú, Portúgal, San Marínó, Spánn, og Þýskaland.
Athygli vekur að Svíar greiddu atkvæði gegn tillögu formanns síns. Svíar mótmæltu hinsvegar einhliða fyrirvara Íslands strax eftir atkvæðagreiðsluna og í kjölfarið gerðu fjölmargir andstæðingar hvalveiða slíkt hið sama.
Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur utanríkisráðneytisins, segir málsmeðferð fundarins í gær í samræmi við túlkun íslenskra stjórnvalda á þjóðarétti. Aðilar ráðsins hafi rétt á að mótmæla fyrirvara Íslendinga einhliða en ekki með ákvörðun í ráðinu sjálfu, enda sé ráðið ekki bært til að taka slíka ákvörðun. Einhliða mótmæli einstakra ríkja við fyrirvara Íslendinga hafi því ekki áhrif á aðild Íslands. "Við höfum litið á okkur sem aðila að Alþjóðahvalveiðiráðinu frá því að við lögðum umsókn okkar fram fyrir aðalfund ráðsins í London á síðasta ári. Nú hefur ráðið formlega viðurkennt umsókn okkar og önnur aðildarríki verða að sætta sig við hana."