Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkti í gær aðildarumsókn Íslands að ráðinu á aukaaðalfundi sem haldinn er í Englandi. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir að um áfangasigur sé að ræða og vonar að vísindaveiðar á hval geti hafist hér við land fyrr en seinna.
Nokkuð var tekist á um aðildarumsókn Íslendinga við upphaf fundarins í gær. Formaður ráðsins, Svíinn Bo Fernholm, lagði að lokum fram tillögu um að niðurstaða aðalfundarins frá í maí sl., um að Ísland hefði aðeins áheyrnaraðild að ráðinu, yrði staðfest. Tillagan var hins vegar felld með eins atkvæðis mun, 19 atkvæðum gegn 18, og greiddu Svíar m.a. atkvæði gegn tillögunni og þar með formanninum. Íslendingar eru þar með fullgildir aðilar að ráðinu, með fyrirvara um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni. Þó skuldbinda Íslendingar sig til að hefja ekki hvalveiðar í atvinnuskyni fyrr en í fyrsta lagi eftir árið 2006.
Árni segir það vera grundvallaratriði að eiga aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu til að geta stundað hvalveiðar á löglegan hátt. "Þetta opnar okkur leið til að hefja hvalveiðar í vísindaskyni. Næsta skref er að gera áætlun um vísindaveiðarnar og leggja fyrir ráðið, þótt við séum reyndar óbundin af afstöðu þess," segir Árni.