Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs hefur ákveðið að gangast fyrir sérstakri ráðstefnu um hvalveiðimál í febrúar næstkomandi. Þetta kom fram í máli Arnbjargar Sveinsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Norðurlandaráðsþingi í dag.
Arnbjörg sagði að skiptar skoðanir væru á Norðurlöndum um réttmæti hvalveiða, en að koma yrði umræðunni burt frá þeim skotgrafahernaði og æsingum sem hingað til hefðu verið ráðandi.
Hún sagði að sömu grundvallarviðmið yrðu að gilda um veiðar í sjó eins og á landi, það er að segja að þær skuli leyfa ef þær eru stundaðar á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Arnbjörg minnti á að á Norðurlöndum væru til dæmis stundaðar veiðar á elgum og dádýrum.
Arnbjörg nefndi einnig samskipti Rússa og Dana í ræðu sinni og sagði að það væri óþolandi að rússneska stjórnvöld beittu Dani þrýstingi af þeim sökum að þeir hafi leyft löglegan pólitískan fund Tjetjena í Kaupmannahöfn.