Anna Lindh, utanríkisráðherra Svía, átti fund með Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra, í utanríkisráðuneytinu í morgun. Að fundinum loknum lögðu ráðherrarnir áherslu á að þeir hefðu átt gott samstarf í gegnum tíðina og góðan fund þar sem þau hafi m.a. rætt um stækkun Evrópusambandsins, EES og greiðslur Íslendinga til sambandsins. Spurð um afstöðu Svía til þessara viðræðna sagði Lindh að þar sem Svíar ættu aðild að Evrópusambandinu ættu þeir beina aðild að þessum viðræðunum og styddu því kröfur ESB. Hún sagði Halldór þó hafa gert sér skýra grein fyrir afstöðu Íslendinga í málinu í morgun.
Lindh sagði að þótt Svíar myndu fagna því að Íslendingar gengju í ESB, þar sem það myndi auka áhrifamátt Norðurlandanna innan sambandsins, væri ekki þar með sagt að Norðurlöndin myndu standa saman í öllum málum sem upp koma innan ESB, þar sem hver þjóð muni ávallt setja eigin hagsmuni í fyrirrúm.
Ráðherrarnir ræddu einnig hvalveiðimálið á fundinum í morgun og sagði Lindh að þótt afstaða þjóðanna væri augljóslega ekki sú sama hefði það ekki leitt til fjandskapar. Viðræður um málið hefðu verið vinsamlegar í morgun og hún vonist til að samningaviðræður haldi áfram og að þær skili árangri. Þá sagðist hún fagna aðild Íslendinga að Hvalveiðiráðinu.
Íraksmálið var einnig rætt á fundi ráðherranna og sagði Lindh að afstaða Svía væri svipuð afstöðu Frakka þ.e. að þeir telji að leita beri allra leiða til að leysa Íraksdeiluna með friðsamlegum hætti og innan Sameinuðu þjóðanna. Svíar hafi þó ekki útilokað stuðning við hugsanlegar hernaðaraðgerðir reynist aðrar leiðir árangurslausar.
Lindh mun í dag klukkan 12 flytja opinn fyrirlestur á vegum Háskóla Íslands í Odda, stofu 101 um reynslu Svía af aðild að Evrópusambandinu, framtíð sambandsins og hugsanlegt hlutverk Norðurlandanna innan þess.