Hvalveiðimálið hefur ekki leitt til fjandskapar Íslendinga og Svía

Anna Lindh og Halldór Ásgrímsson á blaðamannafundi í morgun.
Anna Lindh og Halldór Ásgrímsson á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Halldór Kolbeins

Anna Lindh, ut­an­rík­is­ráðherra Svía, átti fund með Hall­dóri Ásgríms­syni, ut­an­rík­is­ráðherra, í ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu í morg­un. Að fund­in­um lokn­um lögðu ráðherr­arn­ir áherslu á að þeir hefðu átt gott sam­starf í gegn­um tíðina og góðan fund þar sem þau hafi m.a. rætt um stækk­un Evr­ópu­sam­bands­ins, EES og greiðslur Íslend­inga til sam­bands­ins. Spurð um af­stöðu Svía til þess­ara viðræðna sagði Lindh að þar sem Sví­ar ættu aðild að Evr­ópu­sam­band­inu ættu þeir beina aðild að þess­um viðræðunum og styddu því kröf­ur ESB. Hún sagði Hall­dór þó hafa gert sér skýra grein fyr­ir af­stöðu Íslend­inga í mál­inu í morg­un.

Lindh sagði að þótt Sví­ar myndu fagna því að Íslend­ing­ar gengju í ESB, þar sem það myndi auka áhrifa­mátt Norður­land­anna inn­an sam­bands­ins, væri ekki þar með sagt að Norður­lönd­in myndu standa sam­an í öll­um mál­um sem upp koma inn­an ESB, þar sem hver þjóð muni ávallt setja eig­in hags­muni í fyr­ir­rúm.

Ráðherr­arn­ir ræddu einnig hval­veiðimálið á fund­in­um í morg­un og sagði Lindh að þótt afstaða þjóðanna væri aug­ljós­lega ekki sú sama hefði það ekki leitt til fjand­skap­ar. Viðræður um málið hefðu verið vin­sam­leg­ar í morg­un og hún von­ist til að samn­ingaviðræður haldi áfram og að þær skili ár­angri. Þá sagðist hún fagna aðild Íslend­inga að Hval­veiðiráðinu.

Íraksmálið var einnig rætt á fundi ráðherr­anna og sagði Lindh að afstaða Svía væri svipuð af­stöðu Frakka þ.e. að þeir telji að leita beri allra leiða til að leysa Íraks­deil­una með friðsam­leg­um hætti og inn­an Sam­einuðu þjóðanna. Sví­ar hafi þó ekki úti­lokað stuðning við hugs­an­leg­ar hernaðaraðgerðir reyn­ist aðrar leiðir ár­ang­urs­laus­ar.

Lindh mun í dag klukk­an 12 flytja op­inn fyr­ir­lest­ur á veg­um Há­skóla Íslands í Odda, stofu 101 um reynslu Svía af aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, framtíð sam­bands­ins og hugs­an­legt hlut­verk Norður­land­anna inn­an þess.

mbl.is