"Markmiðið með því að hefja hvalveiðar í vísindaskyni er að fá meiri upplýsingar um lífríkið í hafinu og samspil dýrastofna í því. Þegar þær upplýsingar liggja svo fyrir, ráða önnur sjónarmið því hvort hvalveiðar í atvinnuskyni verði hafnar á ný," segir Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra í samtali við Morgunblaðið.
Árni segir að erfitt sé að segja til um það hvenær þessar veiðar í vísindaskyni geti hafizt, þótt það komi til greina að upphaf þeirra verði í ár. Ekki sé hægt að taka ákvörðun fyrr en að loknum ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í júní, en að honum loknum verði hægt að meta stöðuna. Þar muni koma fram viðbrögð aðildarþjóðanna og geti þau ráðið nokkru um framhaldið, þótt réttur okkar til vísindaveiða sé ótvíræður.
Árni segir enn fremur að þegar sé farið að huga að þáttum eins og hverjir veiði hvalinn og hvernig afurðunum verði ráðstafað.
"Annars á þetta allt eftir að koma í ljós," segir Árni.
"Það er alveg ljóst að stjórnvöld þurfa ekkert að bíða eftir ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins með ákvörðun um vísindaveiðar. Þau eru í fullum rétti til þess. Það þjónar engum tilgangi að leggja fram áætlun um hvalveiðar í vísindaskyni, ætli menn ekki að framfylgja henni," segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.
Kristján segir að illa hafi verið staðið að öllum þessum málum og flestu klúðrað sem hægt hafi verið. Sé stjórnsýslan á Íslandi almennt á svipuðum nótum gefi hann ekki mikið fyrir hana.
"Það er hægt að taka ákvörðun um veiðar í vísindaskyni strax. Ef hefja á veiðar í sumar verður að gera það, því það tekur nokkra mánuði að gera klárt fyrir veiðarnar. Það er líka ljóst að veiðar í vísindaskyni mega engan hagnað gefa. Það liggur ekki heldur enn fyrir hvernig á að kosta þessar veiðar og það þarf að vera klárt áður en haldið verður af stað."