Nýsjálendingar segjast ætla að leggjast formlega gegn aðild Íslendinga að Alþjóðahvalveiðiráðinu (IWC) þar sem þeir telji sig með aðild geta hafið hvalveiðar í atvinnuskyni á ný.
Íslendingar sögðu sig úr IWC árið 1992 en tilkynntu þátttöku í ráðinu á ný í fyrra og lýstu fyrirvara við bann við hvalveiðum í atvinnuskyni.
Phil Goff utanríkisráðherra Nýja Sjálands og Chris Carter umhverfismálaráðherra segja að með því kjósi Íslendingar að hafa opinn þann kost að hefja hvalveiðar sem aðilar að IWC.
„Nýja Sjáland er afar andvígt fyrirvörum Íslendinga og það höfum við formlega tilkynnt IWC," sögðu ráðherrarnir í sameiginlegri yfirlýsingu. „Lögfræðileg niðurstaða er að fyrirvarinn er ólögmætur samkvæmt stofnskrá IWC og uppfyllir heldur ekki þau skilyrði alþjóðaréttar að fyrirvari verði að vera samrýmanlegur markmiðum stofnskrárinnar. Með því að setja þennan fyrirvara hafa Íslendingar og með ótilhlýðilegum hætti freistað þess að sniðganga viðteknar aðferðir til að fá breytingar á hvalveiðibanninu," segir í yfirlýsingu ráðherranna.