Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sagði eftir fund sem hann sat með utanríkismálanefnd Alþingis í dag, að hann gæti ekki upplýst um efni bréfs frá George W. Bush Bandaríkjaforseta, sem Elizabeth Jones, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, lagði fram á fundi með Davíð Oddssyni forsætisráðherra og Halldóri í morgun. Halldór segir hins vegar alveg ljóst að Bandaríkjamenn hafi áhuga á að finna nýjar leiðir til að tryggja varnir Íslands.
„Við höfum talið það algjörlega nauðsynlegt að hafa hér loftvarnir. Það kemur ekkert fram í bréfi forsetans sem bendir til þess að þeir séu á öðru máli. Við munum svara þessu bréfi og segja frá því hvernig við viljum fara í þær viðræður sem eru framundan um þessi mál. Það er alveg ljóst að málið er viðkvæmt og það er alvarlegt og við verðum að bíða og sjá hvernig þessum viðræðum lyktar," sagði Halldór við blaðamenn eftir fundinn með utanríkismálanefnd.
Halldór vildi ekkert segja um það hvort að í bréfinu kæmi fram vilji Bandaríkjamanna um að draga úr herstyrknum hér á landi. „En það liggur fyrir að þeir vilja fara nýjar leiðir í þessu sambandi; hvað þeir eiga nákvæmlega við vil ég ekki segja um á þessu stigi. Það hefur verið talað um það að hér væru t.d. ekki loftvarnir og hefur verið vísað til þess að slíkar loftvarnir væru í Bandaríkjunum og Bretlandi eða annars staðar. Það er auðvitað alveg ljóst að það gefur ekki sömu tryggingu og ef þessar varnir væru hér á landi. Þær gefa ekki sömu tryggingu að því er varðar almennt öryggi á Norður-Atlantshafi."