Á fundi Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, og Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með Elizabeth Jones, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í Ráðherrabústaðnum í dag, var lagt fram bréf frá George W. Bush Bandaríkjaforseta. Davíð vildi að svo stöddu ekki tjá sig um efni bréfsins en sagði að íslensk stjórnvöld myndu svara því. Farið verður yfir málið á fundi utanríkismálanefndar Alþingis sem hefst klukkan 12.
Hvorki Davíð né Halldór Ásgrímsson vildu að svo stöddu tjá sig um fundinn með Jones í dag. Davíð sagði að þótt ekki hefði verið um að ræða formlegan fund hefðu málin skýrst nokkuð. „Málið er mjög viðkvæmt núna þannig að ég ætla ekki að fara út í einstök atriði á þessu stigi," sagði Davíð við fréttamenn.
Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að fundurinn í dag var talinn marka upphaf komandi viðræðna um framtíð varnarsamningsins við Bandaríkin.
Viðræður um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna vegna breyttra aðstæðna í heimsmálum hófust árið 1993. Í janúar 1994 var undirrituð bókun til tveggja ára um framkvæmd varnarsamstarfsins. Með henni var ákveðið að orrustuþotum varnarliðsins skyldi fækkað úr tólf í fjórar. Þá var ákveðið að leggja niður starfsemi hlustunarstöðvar og fjarskiptastöðvar.
Árið 1996 var samþykkt ný bókun um framkvæmd varnarsamningsins til næstu fimm ára. Þrátt fyrir að bókunin hafi einungis átt að gilda til ársins 2001 hafa formlegar viðræður um endurnýjun bókunarinnar enn ekki hafist. Óformlegar þreifingar um framhald málsins hafa hins vegar átt sér stað milli embættismanna og stjórnmálamanna ríkjanna undanfarin misseri.
Dvöl Jones hér á landi verður stutt og fer hún af landinu síðdegis í dag. Bandaríska sendiráðið heldur utan um heimsókn Jones og kemur hún ekki sem gestur íslenskra stjórnvalda. Með henni í för er Ian Brzezinski, sem er varaaðstoðarráðherra í bandaríska varnarmálaráðuneytinu.