Bandaríkjamenn óskuðu eftir því fyrir um einu og hálfu ári að bandaríska flugsveitin á Keflavíkurflugvelli færi tímabundið af landi brott og sinnti verkefnum annars staðar. Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins í dag og jafnframt að ekkert hafi orðið úr því vegna þess að íslensk stjórnvöld höfnuðu beiðninni eindregið.
Þá sagði Ríkisútvarpið að í bréfi Georges W. Bush Bandaríkjaforseta til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra sé ekki rætt um brotthvarf flughersins héðan heldur aðeins að leitað verði nýrra leiða til að tryggja varnir landsins. AFP-fréttastofan hafði eftir háttsettum bandarískum embættismönnum að í bréfinu væri tilkynnt að herflugvélar yrðu væntanlega fluttar frá Keflavíkurflugvelli í sumarlok.
Þá hafði RÚV eftir heimildarmönnum að fundur í Ráðherrabústaðnum á fimmtudag, þar sem Elizabeth Jones, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna afhenti bréfið frá Bush, hafi verið snubbóttur. Til marks um það sé tímalengd fundarins sem stóð aðeins í hálfa klukkustund. Eftir að forsætis- og utanríkisráðherra fengu bréfið í hendur hafi þeir gefið til kynna að þeir vildu ekki ræða mikið við Jones. Á þeim fundi hafi hins vegar komið fram að Bandaríkjamenn vilji að flugherinn fari héðan og að ákvörðun um það liggi fyrir eftir einn til tvo mánuði. Ekki er hins vegar ljóst hvort krafa sé um að hann fari strax í sumarlok en íslensk stjórnvöld gera sér að minnsta kosti vonir um að einhver aðdragandi verði að því. Það mun væntanlega koma fram í svarbréfinu sem forsætisráðherra sendir Bush Bandaríkjaforseta í næstu viku.