Greiningardeild Landsbankans segir að tvennt sé líklegt til að hafa áhrif á gengi krónunnar næstu daga. Annars vegar skýrsla Hafrannsóknastofnunar um nytjastofna og hins vegar fréttir af mögulegum samdrætti í umsvifum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Innflæði gjaldeyris í tengslum við varnarliðið sé umtalsvert og því gætu minni umsvif haft töluverð áhrif á markaðinn og leitt til þess að gengi krónunnar lækki.
Landsbankinn segir, að skýrsla Hafrannsóknastofnunar í fyrra hafi gefið vísbendingu um aukningu þorskkvóta á þessu ári, auk þess sem aukning þorskkvóta um 30 þúsund tonn hafi verið í umræðunni nokkuð lengi. Fréttir um aukinn fiskafla ættu að óbreyttu að styrkja krónuna, en þær fréttir eru að mati Landsbankans að mestu hluta komnar inn í verð krónunnar.
Greiningardeild LÍ telur að styrkingu krónunnar sé lokið í bili og að gengið muni sveiflast á tiltölulega þröngu bili á næstu mánuðum eða á bilinu 120-125 vísitölustig. Kaup Seðlabankans á gjaldeyri, aukinn innflutningur og hátt raungengi krónunnar séu líkleg til að skapa þrýsting til lækkunar. Á móti vegi óvissa um hvort áframhald verði á aðgerðum Seðlabankans á næsta ári. Auk þess bíði bæði útflutningsfyrirtæki og fagfjárfestar færis á að gengistryggja tekjur og erlendar fjárfestingar og mynda þannig viðnám gegn mikilli veikingu. Greiningardeild á því ekki von á að gengisvísitalan sveiflist yfir 125 stig.