Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, hefur sent utanríkismálanefnd Alþingis bréf þar sem lýst er megnri óánægju með að nefndin skyldi ekki vera kölluð til efnislegs samráðs um innihald svarbréfs forsætisráðherra til Bandaríkjaforseta varðandi framtíð herstöðvarinnar í Keflavík. Bréfið var boðsent til Washington í gær og mun Helgi Ágússon sendiherra afhenda það bandarískum stjórnvöldum í dag.
Steingrímur segir, að eðli málsins samkvæmt þurfi slíkt samráð að eiga sér stað áður en gengið sé endanlega frá innihaldi svarsins og bréfið sent. „Jafnvel þótt ofangreindir ráðherrar og formenn stjórnarflokkanna hyggist, nú sem oftar, hundsa lögboðið samráð við utanríkismálanefnd hvað varðar efnisinnihald orðsendingarinnar til Bandaríkjastjórnar væri lámarkskurteisi að utanríkismálanefndarmenn fengju bréfið í hendur áður en það verður afhent vestanhafs síðdegis í dag. Nú hefur mér verið tjáð að nefndarmenn fái bréfið fyrst afhent á fundi í nefndinni síðdegis á morgun. Þessari framkomu við utanríkismálanefnd og Alþingi mótmæli ég," segir Steingrímur í bréfinu.
Hann óskar jafnframt eftir því að á fundi nefndarinnar á morgun gefist kostur á að leggja spurningar fyrir utanríkisráðherra varðandi blekkingar og lygar sem notaðar hafi verið til að réttlæta árás á Írak í vetur leið og sífellt séu að afhjúpast betur og betur. „Þess verður að krefjast að ríkisstjórnin axli ábyrgð í því sambandi eins og nú er krafist annars staðar af þeim stjórnvöldum sem stóðu fyrir eða studdu hernaðinn," segir í bréfi Steingríms.