Þjónar ekki hagsmunum þjóðarinnar að ræða efni svarbréfs Davíðs

Fundi utanríkismálanefndar Alþingis er lokið en að honum loknum sagðist Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra í samtali við Stöð 2 ekki geta tjáð sig um efni bréfs Davíðs Oddssonar forsætisráðherra til George W. Bush Bandaríkjaforseta. Halldór sagði það ekki þjóna hagsmunum varnarmálsins né hagsmunum íslensku þjóðarinnar að ræða efni svarbréfs Davíðs á þessu stigi enda væri málið á viðkvæmu stigi.

Í fréttum Sjónvarps kom fram að ekki hafi verið sérstaklega tilgreint í bréfi Bandaríkjaforseta til Davíðs að flytja ætti að flugherinn á brott frá Íslandi heldur eingöngu fjallað um endurskoðun samningsins.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, mótmælti því harðlega að ekki hafi verið haft samráð við minnihlutann áður en bréfi Bush var svarað.

mbl.is