Ársfundur Alþjóða hvalveiðiráðsins hófst í Berlín, höfuðborg Þýskalands, í morgun. Renate Künast, umhverfisráðherra Þýskalands, sagði þegar hún setti ársfundinn, að þjóðir heims gerðu sér æ betur grein fyrir þeim hættum sem steðjuðu að hvalastofnunum vegna ofveiði, mengunar og hávaða. „Hvalir eru gáfaðar og viðkvæmar skepnur. Okkur ber að vernda þá," sagði Künast sem er félagi í flokki Græningja í Þýskalandi.
Talið er að mikil átök verði á ársfundinum milli hvalveiðiþjóða undir forustu Japana, Norðmanna og Íslendinga og þeirra þjóða sem vilja að hvalveiðiráðið breyti um hlutverk og verði hvalfriðunarráð. Þýskaland, ásamt 18 öðrum þjóðum, leggur fram tillögu á ársfundinum um að beina starfi ráðsins í þá átt með því að setja á fót sérstaka verndunarnefnd innan ráðsins og gæti tillagan komið til atkvæða síðar í dag. Í tillögunni er m.a. gert ráð fyrir að hvalveiðiráðið vinni með dýraverndunarsamtökum víða um heim að því að styrkja verndun sjávarspendýrastofna.
Künast sagði í ávarpi sínu að hún vildi sjá hvalveiðiráðið gert ábyrgt fyrir verndun allra hvala.
Íslendingar leggja á fundinum fram áætlun um hvalveiðar í vísindaskyni. Þar er gert ráð fyrir veiðum á 100 hrefnum, 100 langreyðum og 50 sandreyðum árlega.
Heimasíða Alþjóða hvalveiðiráðsins