Þetta er fyrst og fremst bakslag fyrir þær tilraunir að þoka áfram stjórnunarráðstöfunum Hvalveiðiráðsins, þannig að ráðið geti farið að stjórna hvalveiðum,“ segir Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, varðandi samþykkt á svonefndu Berlínarfrumkvæði sem felur í sér stofnuð verði sérstök nefnd er fjalli um verndun hvalastofna gegn ofveiði, mengun, veðurfarsbreytingum o.fl. og sú nefnd starfi með náttúru- og dýraverndarsamtökum.
Stefán segir ótímabært að segja að ferlið sé dautt. „En það var erfitt fyrir og veður ennþá erfiðara núna, það er ljóst,“ segir Stefán. Japanska sendinefndin gekk af fundi þegar Berlínarákvæðið var samþykkt og segist Stefán ekki vita hvort hún muni mæta til fundar að nýju í fyrramálið.
Hann segir þetta mikil vonbrigði fyrir Íslendinga. „Við höfum sett það á oddinn í okkar starfi í Hvalveiðiráðinu að reyna að þoka þessu ferli með stjórnunarráðstafanirnar,“ segir Stefán. Hann segir íslensku, japönsku og norsku sendinefndirnar ekki hafa ráðið ráðum sínum varðandi framhaldið. „Það á eftir að koma í ljós hvernig verður tekið á þessum stjórnunarráðstöfunarmálum hérna. En við munum gera það sem við getum til að reyna að þoka þeim málum áfram.“
Stóryrði í umræðum
Að sögn fréttastofunnar AFP voru þingfulltrúar stóryrtir í umræðum um tillöguna. Voru tillöguríkin sökuð um að „ræna" hugsjónum hvalverndarsinna og nota smánarleg og útblásin rök til að afla atkvæða. Meðal ríkjanna sem lögðu tillöguna fram voru Þýskaland, Ástralía, Finnland, Bretland, Frakkland, Bandaríkin, Nýja-Sjáland og Svíþjóð.
Japanar, Norðmenn og Íslendingar, hótuðu því í dag að vinna ekki með friðunarnefndinni og gera hana þannig óstarfhæfa. Voru ríkin þá sökuð um að geta ekki tekið ósigri.
Hvalirnir öruggari nú
Náttúruverndarsamtökin International Fund for Animal Welfare segja, að eftir að Berlínarfrumkvæðið hafi verið samþykkt hafi samtökin breyst úr hvalveiðisamtök í hvalverndunarsamtök. „Hvalir í úthöfunum eru öruggari nú en áður, þökk sé þessari samþykkt," segir Fred O'Regan forseti samtakanna í tilkynningu.
Tillagan, sem borin var fram af 19 aðildarríkjum hvalveiðiráðsins, var samþykkt með 25 atkvæðum gegn 20 en eitt ríki sat hjá.