Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins hefst í Berlín í Þýskalandi í dag. Formaður íslensku sendinefndarinnar, Stefán Ásmundsson, gerir ráð fyrir að áætlun Íslendinga um vísindaveiðar á hvölum komi til umræðu á morgun eða miðvikudag. Áætlunin hefur verið kynnt fyrir vísindanefnd ráðsins og segir Stefán viðbrögðin hafa verið misjöfn, allt eftir því hvaða ríki eigi í hlut. Hann býst einnig við yfirlýsingum frá ríkjum sem andvíg hafa verið aðild Íslands að hvalveiðiráðinu að nýju.
Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu miðast áætlun Íslendinga við að veiða 250 hvali í vísindaskyni á tveimur árum; 100 hrefnur, 100 landreyðar og 50 sandreyðar.
Er rætt var við Stefán Ásmundsson í gær stóð yfir fundahlé hjá formannanefnd ráðsins við undirbúning og skipulagningu ársfundarins, sem á að standa yfir til fimmtudags.
Að sögn Stefáns hefur vísindanefnd hvalveiðiráðsins tekið vísindaáætlun Íslendinga til rækilegrar umfjöllunar. Mun nefndin kynna sína skýrslu fyrir ráðinu og í kjölfarið má vænta umræðna um málið. Stefán segir óformleg viðbrögð nefndarmanna vera blendin, sumir fagni áætluninni en aðrir ekki, einkum fulltrúar þeirra ríkja sem almennt eru andvíg öllum hvalveiðum.
Aðspurður um önnur mál á ársfundinum sem snerta Ísland segir Stefán að vænta megi yfirlýsinga frá löndum sem algerlega eru andvíg inngöngu Íslands í hvalveiðiráðið, þ.e. frá Mexíkó, Ítalíu og Nýja-Sjálandi. Aðildin sem slík verði væntanlega ekki jafn fyrirferðarmikið mál og á tveimur síðustu ársfundum.
Með Stefáni er fjölmenn sendinefnd fulltrúa utanríkisráðuneytisins, hagsmunahópa í sjávarútvegi, frá Hafrannsóknastofnun og sendiráðinu í Þýskalandi.
Árni segir engar ákvarðanir verða teknar um hvenær vísindaveiðar við Íslandsstrendur hefjist fyrr en að loknum ársfundinum þegar viðbrögðin liggja fyrir. Efnisatriðin skipti máli gagnvart hvalveiðiráðinu en ekki dagsetningar. Þó að veiðarnir verði jafnvel samþykktar sé heldur ekki allt leyst með því, t.d. séu söluhorfur ekki góðar á heimsmarkaði með hvalaafurðir.
Aðspurður hvort mótmæli ýmissa friðunarsamtaka við fundarstað muni hafa áhrif á málstað Íslands telur Árni ekki svo vera. Vinnubrögðin séu hefðbundin og "frekar leiðigjörn". Um atvinnumótmælendur sé að ræða sem menn þurfi að lifa við.