Viðræður við Bandaríkin um varnarmál hefjast á næstunni

Davíð Oddsson forsætisráðhera sagði í ávarpi á Austurvelli að hann …
Davíð Oddsson forsætisráðhera sagði í ávarpi á Austurvelli að hann teldi Bandaríkjaforseta hafa góðan skilning á þeim grundvallaratriðum sem eru í húfi fyrir Íslendinga.

Davíð Oddsson forsætisráðherra segist vera bjartsýnn á að sanngjörn lausn fáist í umræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna um varnarsamstarf. Davíð sagði í þjóðhátíðarávarpi sínu á Austurvelli fyrir stundu að bréfaskipti hans og George W. Bush Bandaríkjaforseta hefðu farið fram af hreinskilni og vinsemd. Hann sagðist telja Bush hafa góðan skilning á þeim grundvallaratriðum sem eru í húfi fyrir Íslendinga. Davíð upplýsti ennfremur að á næstunni muni fulltrúar ríkjanna tveggja hittast hér á landi.

Davíð sagði ennfremur: „Viðsjár í okkar heimshluta hafa minnkað í okkar heimshluta sem betur en þó er ekkert ríki á þessum slóðum sem treystir sér til að vera án raunverulegra varna sem geta brugðist fljótt við óvæntri vá.“

Davíð ræddi síðan um varnarmál Íslands og sagði m.a.: „Ég hef haft tækifæri til þess að fylgjast með [Bandaríkja]forsetanum í návígi fjalla um slík mál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og tel að hann hafi gert það með miklum ágætum og sýnt góðan skilning á þeim grundvallaratriðum sem hér eru í húfi. Ég leyfi mér því að hafa traust á því að þessar góðu vinaþjóðir beri gæfu til að finna sanngjarna niðurstöðu á þeim álitaefnum sem nú eru til umræðu.“ Davíð sagði að á fundinum sem boðað verður til hér á landi á næstunni verði farið yfir þá kosti sem fyrir hendi eru og „þá auðvitað þau meginsjónarmið einnig sem við Íslendingar höfum um þann lágmarksvarnarviðbúnað sem hver þjóð hlýtur að gera kröfur til á þessum tíma sem öðrum.“

Voru almenningi send skýr skilaboð í Alþingiskosningum?

Þá ræddi forsætisráðherra einnig um síðustu Alþingiskosningar. „Sumir hafa haldið því fram að með þessum kosningum hafi verið send skýr skilaboð. Var það svo? Voru stjórnmálamönnum send skýr skilaboð í efnahags-, skatta- eða húsnæðismálum? Umræða um sjávarútvegsmál var fyrirferðamikil í kosningabaráttunni en getur einhver haldið því fram að hún hafi verið skýr eða skynsamleg? Sá flokkur sem einkum gerði þau mál að heilagri baráttu gegn handónýtu fiskveiðikerfi, eins og það var orðað, tvöfaldaði vissulega fylgi sitt en fékk einungis fjóra þingmenn og er minnstur flokka á þingi.“

Davíð að þau skilaboð, að ríkisstjórn hafi haldið velli með afgerandi hætti þótt annar stjórnarflokkurinn tapaði nokkru fylgi, hefðu verið a.m.k. verið sæmilega skýr „og hefur þegar verið tekið mið af þeim,“ sagði Davíð.

mbl.is