Ekki gefin út dagsetning fundar Bandaríkjamanna og Íslendinga

Ekki hefur verið gefin út nákvæm dagsetning á fyrirhuguðum fundi íslenskra og bandarískra embættismanna um varnarmál Íslendinga en Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í ávarpi sínu í gær að slíkur fundur yrði haldinn hér á landi á næstunni. Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sagði að ekki yrði gefið upp að svo stöddu hvort samkomulag hefði náðst um dagsetningu né heldur hvort fundurinn yrði í þessari viku eða næstu eða síðar.

Illugi sagði að þó svo að málið væri á forræði forsætisráðuneytisins væri það unnið í nánu samstarfi og samráði við utanríkisráðuneytið og utanríkisráðherra.

Aðspurður um hvort Bandaríkjastjórn hefði brugðist við svarbréfi forsætisráðherra sagði Illugi: „Þetta er niðurstaðan að viðræðurnar verða á grundvelli bréfanna“ sem farið hafa milli forsætisráðherra og Bandaríkjaforseta.

mbl.is