Fundur um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna í dag

Í dag klukkan níu hefst fundur í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg um framkvæmd tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna.

Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, fer fyrir samningaliði Íslands. Aðrir í hópnum eru m.a. Albert Jónsson, forsætisráðuneyti, Sturla Sigurjónsson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og Helgi Ágústsson, sendiherra Íslands í Washington. Gert er ráð fyrir að fundinum ljúki um eða eftir hádegi.

Fundurinn er haldinn í beinu framhaldi af bréfaskiptum Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, og George W. Bush, forseta Bandaríkjanna.

Gunnar Snorri segir að á fundinum muni fulltrúar ríkjanna gera grein fyrir afstöðu ríkisstjórna sinna.

Í sendinefnd Bandaríkjanna verða fulltrúar frá bæði utanríkisráðuneyti og varnarmálaráðuneyti auk þess sem fulltrúi þjóðaröryggisráðsins, sem heyrir beint undir forsetann í Hvíta húsinu, verður með í för. "Frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu koma bæði fulltrúar ráðuneytisins sjálfs og aðilar úr hernum," segir Gunnar.

Ekki óvenjulegt að senda svo fjölmenna sendinefnd

Í gærkvöldi hafði endanlegur þátttakendalisti Bandaríkjamanna ekki borist og ekki var ljóst hvort fulltrúar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli yrðu í sendinefndinni.

Aðspurður sagðist Gunnar Snorri ekki telja óvenjulegt að Bandaríkjamenn sendu svo fjölmenna sendinefnd til Reykjavíkur. Hann sagði hins vegar að þátttaka fulltrúa Hvíta hússins væri að nokkru leyti óvenjuleg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: