Viðræðunefndirnar fámálar um varnarmálafund

Marisa Lino ræðir við blaðamenn eftir fundinn í utanríkisráðuneytinu.
Marisa Lino ræðir við blaðamenn eftir fundinn í utanríkisráðuneytinu. mbl.is/Júlíus

Fundi viðræðunefnda bandarískra og íslenskra stjórnvalda um varnarmál lauk um klukkan 12:30 í dag. Marisa Lino, sem fer fyrir bandarísku nefndinni, vildi lítið tjá sig um viðræðurnar eftir fundinn, að öðru leyti en því að fram hefðu farið gagnleg skoðanaskipti. Ekki hefur verið ákveðið hvort fleiri fundir verða á næstunni. Gunnar Snorri Gunnarsson ráðuneytisstjóri, sem fór fyrir íslensku nefndinni, sagði að um hefði verið að ræða gagnlegar og vinsamlegar viðræður þar sem reifuð hefði verið afstaða beggja samningsnefnda. Hann vildi ekki tjá sig um hvort einhver niðurstaða væri í sjónmáli. Viðræðunefndirnar snæða saman hádegisverð en Bandaríkjamennirnir fara úr landi síðdegis.

„Við höfum hlakkað til þess að eiga viðræður við Íslendinga um sameiginleg hagsmunamál okkar í varnarmálum. Viðræðurnar byggðust á bréfaskiptum Bandaríkjaforseta og forsætisráðherra Íslands og langri vináttu milli ríkja okkar. Við skiptumst á skoðunum um hvernig eigi að halda áfram samvinnu okkar í varnarmálum en þó með varnarhagsmuni Íslands að leiðarljósi. Við höfum í dag átt gagnleg skoðanaskipti og munum nú ráðgast við stjórnvöld okkar áður en ákveðið verður hvernig haldið verður áfram,“ sagði Lino. „Meira ætla ég ekki að segja í bili. Við höfum átt gagnlegar viðræður og hlökkum til að ákveða hvernig við tökum upp þráðinn að nýju,“ bætti Lino við. Þegar hún var spurð hvenær næsti fundur færi fram sagði Lino að það hefði ekki verið ákveðið.

Gunnar Snorri sagði að í dag og á morgun muni íslenska samninganefndin fara yfir stöðuna með Davíð Oddssyni forsætisráðherra og Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra. „Eftir það getum við ákveðið næstu skref,“ sagði Gunnar Snorri. „Við höfðum þarna tækifæri til að skiptast á skoðunum og það er ekki hægt að lýsa viðræðunum á þessu stigi,“ sagði Gunnar Snorri og vildi ekki svara spurningum um það hvort afstaða Bandaríkjastjórnar væri enn sú að skera niður og taka jafnvel þoturnar af landi brott. „Við erum miklir og góðir vinir, Íslendingar og Bandaríkjamenn, en við skiptumst bara á skoðunum um mismunandi sjónarhorn,“ bætti Gunnar Snorri við. Þegar hann var spurður um það hvort samkomulag hefði náðst um einhver atriði svaraði Gunnar Snorri: „Þetta er ekki fundur þar sem neitt er neglt niður, þetta er bara fundur þar sem við förum yfir stöðuna.“

Hann sagðist ekkert geta upplýst um það hvort næsti fundur yrði eftir nokkra daga eða vikur. Það yrði svo að koma í ljós hvort Bandaríkjamenn eða Íslendingar boðuðu til næsta fundar.

Hann sagði að málefni Alþjóðasakamáladómstólsins hefðu ekki verið tekin upp á fundinum.

Gunnar Snorri Gunnarsson ræðir við blaðamenn eftir fundinn í dag.
Gunnar Snorri Gunnarsson ræðir við blaðamenn eftir fundinn í dag. mbl.is/Júlíus
mbl.is