Á nýafstöðnum fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins var tekist á um málefni sem koma til með að móta framtíð hvala og hvalveiðimanna. Auk efnislegra umræðna, þ.e. sem varða hvalveiðar, ber mikið á pólitískri og hugmyndafræðilegri umræðu á þessum vettvangi, en Berlínarfrumkvæðið margumrædda sýnir berlega þann ágreining sem er milli þeirra ríkja, sem vilja vernda hvern einasta hval, og hinna, sem vilja vernda hvalastofna. Í þessu felst, að mínu mati, aðalágreiningsefnið, hvort ráðinu beri að vernda hvalastofna svo að hægt sé að nýta þá eins og aðrar auðlindir sjávarins eða hvort þessar skepnur eigi sér sérstöðu í dýraheiminum og vernda beri hvert einasta dýr.
Alþjóðahvalveiðiráðið telur nú 51 þjóð, sá nýjasta - Belize - gekk í ráðið á miðjum fundi miðvikudaginn 18. júní, þegar aðildarbréf sem sent var 26. maí barst loksins réttri skrifstofu í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. 52. ríkið, Fílabeinsströndin, komst ekki inn í ráðið að þessu sinni, því aðildarbréf þeirra (sem var sent 13. maí) barst ekki í tæka tíð til Bandaríkjanna. Þessar þjóðir, auk nokkurra annarra sem talið er líklegt að muni ganga í ráðið á næstunni, sátu fundinn sem áheyrnaraðilar. Í upphafi fundar tóku nokkrar þjóðir sér tíma til þess að mótmæla aðild Íslands enn á ný, en í allt hafa 18 þjóðir mótmælt aðild Íslands með fyrirvara gegn hvalveiðum. Með þessum mótmælum neita viðkomandi þjóðir einungis að mynda tvíhliða samband við Ísland á þeim vettvangi sem Alþjóðahvalveiðiráðið er; mótmælin koma ekki í veg fyrir að Ísland sé fullgildur aðili að ráðinu.
Þær tóku það því nærri sér þegar vegið var að fullveldi þeirra í dreifiriti náttúrufriðunga á fundinum og því haldið þar fram að Japan hefði einfaldlega keypt þessar þjóðir inn í ráðið. Í kjölfar þeirrar umræðu tók eitt viðkomandi ríkja það fram að Greenpeace hefði greitt aðildargjöld síns lands í upphafi og jafnframt sent fulltrúa á fundi ráðsins, stjórnin hefði ekki einu sinni vitað af aðild sinni fyrr en löngu síðar. Það er þó athyglisvert, að ríki sem þiggja mikla þróunaraðstoð frá Japan, s.s. Perú og Indland, greiða yfirleitt atkvæði á móti þeim og Marokkó, sem er eitt þeirra ríkja sem oft er minnst á í þessu sambandi, situr gjarna hjá í atkvæðagreiðslum. Fulltrúi Fílabeinsstrandarinnar benti á að það væri Afríkuþjóðum hagstæðara að fylgja stefnu ESB innan ráðsins, því þaðan fengju þau mun meiri þróunaraðstoð en frá Japan.
Í kjölfar þeirra ásakana, að þessi ríki væru einungis handbendi Japans í ráðinu var haldinn fundur fastafulltrúa til ráðsins og var þar samþykkt, að þessar ásakanir væru að öllu leyti óviðeigandi. Fulltrúarnir samþykktu einróma að krefjast afsökunarbeiðna frá viðkomandi aðilum og var þeim bannað að gefa út frekari áróður það sem eftir var fundar.
Þá liggur fyrir löggjafarþingi Bandaríkjanna tillaga sem, verði hún samþykkt, veitir herliði landsins undanþágu frá verndarlöggjöf um sjávarspendýr (Marine Mammal Protection Act) og gefur þeim undanþágu frá því að gefa upp hversu mörg sjávarspendýr eru drepin á heræfingum. Tilraunir til að fá skoðanir bandarísku sendinefndarinnar á þessu misræmi í stefnu stjórnarinnar voru tilgangslausar, því enginn virtist nógu hátt settur til að svara spurningum.
Danmörk hóf máls á þessum vanda og fékk því framgengt að þessi hluti tillögunnar yrði strikaður út áður en kom til atkvæðagreiðslu (fastafulltrúi Danmerkur er nýkjörinn formaður ráðsins og formaður RMS-nefndarinnar, svo honum hefur eflaust þótt að sér vegið með þessari tillögu), en í þessum hluta var einmitt mælt fyrir um fjárframlög til umræddrar nefndar. Að því er hvalveiðiþjóðum og stuðningsmönnum þeirra finnst þarf núna að leggja fram tillögu um fjárveitingar til nefndarinnar, en stuðningsmenn Berlínarákvæðisins vilja halda fyrsta fund nefndarinnar fyrir næsta ársfund ráðsins, svo hér er enn eitt efnið fyrir þessa tvo hópa til að deila um.
Hér ber þó áhugavert málefni á góma því skv. þessum yfirlýsingum, og ef hvalveiðiráðið hefur hæfni til þess að fjalla um hvalaskoðanir, ættu öll þau aðildarríki sem nýta hvali á slíkan hátt að greiða hærri aðildargjöld. Aðildargjöldin eru nú þegar viðkvæmt umræðuefni þar sem þróunarlönd telja þau vera svo há að þau letji ríki frekar en hvetji til að ganga í ráðið.
Það er ólíklegt að hvalirnir sjálfir græði nokkuð á því að verndunarnefnd sú, sem Berlínarákvæðið kveður á um, verði stofnuð, því þeir stofnar, sem helst eru í útrýmingarhættu, eru oft veiddir af frumbyggjaþjóðum og því undanþegnir hvalveiðibanninu. Þá eru þær hættur, sem steðja að hvölum eins og öðrum sjávardýrum, vegna mengunar utan þess efnis sem ráðið getur nokkru ráðið um. Því síður virðist líklegt að hvalveiðimenn og iðnaður í kringum veiðarnar hagnist nokkuð á niðurstöðum ráðsins í ár, því enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um úthlutun veiðikvóta og ólíklegt að það gerist á næstunni. Alþjóðahvalveiðiráðinu hefur því mistekist, enn á ný, að sinna verkefnum sínum.
Talsmaður japönsku sendinefndarinnar sagði í samtali að til greina kæmi að fara að ráðum Kanadamanna frá því 1982 og yfirgefa ráðið en halda áfram að taka þátt í vísindastarfi á vegum þess. Enginn talsmaður Japans vildi þó gefa ákveðna yfirlýsingu um hvert framhaldið yrði, en Masayuki Komatsu sagði að ríkisstjórn hans væri að íhuga málið og að það yrði ákveðið á næstu mánuðum. Alþjóðaréttur gefur þó skýrt til kynna að hvalveiðistjórnun skuli sinna á alþjóðavettvangi og því verður áhugavert að fylgjast með frekari þróun þessa máls.
eftir Silju Báru Ómarsdóttur
Höfundur er doktorsnemi í alþjóðasamskiptum við University of Southern California í Los Angeles og sótti fund Alþjóðahvalveiðiráðsins með styrk úr rannsóknasjóði Center for International Studies við sama háskóla. Hafa má samband við hana í omarsdot@usc.edu