Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs var ekki sammála um yfirlýsingu um verndun hvalastofna eða hvalveiðar á fundi sínum í Helsinki í gær. Norskir, grænlenskir og íslenskir stjórnmálamenn studdu tillögu um áframhaldandi hvalveiðar og gagnrýndu Alþjóða hvalveiðiráðið, en fulltrúi Svía hélt því fram að hvalveiðimálið væri viðkvæmt mál í Svíþjóð.
„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ákvörðun Alþjóða hvalveiðiráðsins um aukna vernd hvala. Það er ekki lengur hægt að taka hvalveiðiráðið alvarlega þar sem það kemur oftar og oftar fram sem andmæla- og baráttustofnun,“ segir Asmund Kristoffersen, formaður Umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Norðurlandaráðs.
Hann benti á að nefndin hefði staðið fyrir námstefnu fyrir nokkrum mánuðum síðan, um veiðimenningu og kallað til sérfræðinga, þar sem nefndin hefði komið af stað umræðu milli andstæðinga og þeirra sem vilja leyfa hvalveiðar.
Alþjóða hvalveiðiráðið ákvað í Berlín í síðustu viku, með 25 atkvæðum gegn 20, að hvalveiðiráðið yrði verndarstofnun fyrir hvali og vísaði þar með áætlun vísindamanna um hvalveiðar í framtíðinni á bug.
Umhverfis- og náttúruauðlindanefndin hefur hvatt til umræðna, en hvalveiðiráðið heimilar þær ekki lengur, sagði Josef Motzfeldt frá Grænlandi á fundi nefndarinnar. Motzfeldt hélt því fram að, að hans mati hefði hvalveiðiráðið misst trúverðugleikann og væri því ekki lengur trygging þess að umræður um hvalveiðar væru málefnalegar.
„Ég legg til að við skipum fulltrúa úr nefndinni til að fylgjast með umræðunum,“ sagði Sigurður Kári Kristjánsson á fundinum. Hann fullyrti að Alþjóða hvalveiðiráðið væri nú pólitískara en nokkru sinni fyrr og að það væri nú hreint hvalverndarráð.
„Á Íslandi eigum við erfitt með að skilja að nokkur af okkar norrænu vinum sé á móti hvalveiðum, andstaðan var okkur mikil vonbrigði og hún hafði ekkert með sjálfbæra stjórnun sjávarspendýra að gera,“ sagði Sigurður Kári ennfremur. Hann var jafnframt sammála því að ráðið væri nú fremur stofnun til að vernda hvali en til að fjalla um hvalveiðar.
Daninn Kristen Touborg vonaði að umræðurnar myndu halda áfram, en sagði niðurstöðuna vera þá að nefndin væri ekki sammála um neina stefnu hvað varðar sjálfbæra stjórnun sjávarspendýra á Norðurlöndum. Svíinn Sinikka Bohlin var fylgjandi tillögunni um fulltrúa, en bað um skilning á því að erfitt væri fyrir Svíþjóð að styðja hvalveiðar.