Óskað eftir fundarboði um framhald varnarsamstarfsins

Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, telur stöðuna í yfirstandandi viðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna um framtíð varnarsamstarfsins ekki kalla á fund í utanríkismálanefnd. Nefndin hefur þegar haldið tvo fundi vegna málsins og segist formaður nefndarinnar hafa fengið ósk frá Guðmundi Árna Stefánssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, um að kalla saman fund.

"Að mínu mati hefur ekkert nýtt komið fram í þessu máli, sem snýr að viðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna, sem kallar á fund í nefndinni. Hún hefur þegar fundað tvívegis vegna málsins og þar hafa farið fram gagnleg skoðanaskipti."

Sólveig vísar þá á bug ummælum fulltrúa stjórnarandstöðunnar þess efnis að ríkisstjórnin hafi brotið trúnað gagnvart Alþingi með því að boða ekki til fundar um málið fyrir Alþingiskosningarnar 10. maí. sl. "Ríkisstjórnin braut ekki á nokkurn hátt trúnað við Alþingi, heldur hefur hún þvert á móti haft eðlilegt samráð við utanríkismálanefnd. Þegar menn voru komnir í þá stöðu að geta unnið með málið, sem var ekki fyrr en fulltrúar Bandaríkjastjórnar funduðu með íslenskum stjórnvöldum nýlega og bréf Bandaríkjaforseta var afhent, var strax boðað til fundar í nefndinni. Þetta mál er alvarlegt og á viðkvæmu stigi. Það verður að sjálfsögðu boðað til fundar í utanríkismálanefnd þegar ástæða þykir en það þjónar engum tilgangi, og allra síst hagsmunum Íslendinga, að vera með málið í opinberri umræðu á þessu stigi, eins og sumir þingmenn hafa rætt um. Hér er um að ræða fjöregg þjóðarinnar, þ.e. stöðu Íslendinga í varnar- og öryggismálum, og við Íslendingar þurfum að standa saman í þessu máli í stað þess að slá pólitískar keilur."

Óskar eftir fundi með stjórnvöldum

Guðmundur Árni Stefánsson, fulltrúi Samfylkingar í utanríkismálanefnd, hefur sent formanni nefndarinnar formlegt erindi þar sem hann mælist til þess að óskað verði eftir fundi með stjórnvöldum vegna væntanlegra breytinga á varnarsamstarfi Bandaríkjanna og Íslands. Guðmundur segist telja mjög brýnt að þeirri leynd verði létt sem ríkt hefur yfir bréfaskiptum forsætisráðherra og Bandaríkjaforseta um framhald varnarsamstarfsins. "Okkur í Samfylkingunni finnst það bæði sjálfsagt og eðlilegt svo hægt sé að ræða um þessi mál á grundvelli staðreynda en ekki getsaka og vangaveltna eins og hingað til hefur verið. Við teljum að það þjóni ekki hagsmunum þjóðarinnar að halda þessari umræðu leyndri að meira eða minna leyti," segir Guðmundur Árni. Hann segir einnig mikilvægt að nefndinni sé gerð grein fyrir stöðu þeirra viðræðna sem fóru á dögunum fram á milli stjórnvalda landanna beggja, eðlilegt sé að nefndin fái upplýsingar um hvað fór fram á fundinum og hver næstu skref verði.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: