Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kom saman í morgun og í ályktun sem samþykkt var á fundinum er ítrekuð sú gagnrýni sem flokkurinn hefur áður sett fram á málsmeðferð ríkisstjórnarinnar í viðræðum við Bandaríkjamenn um framtíð herstöðvarinnar í Keflavík. Segir VG að í þessu tilviki eins og fleirum á undanförnum mánuðum hafi lögboðið samráð við utanríkisnefnd Alþingis verið brotið.
Þingflokkurinn hvetur til þess að leynd verði aflétt af efnisatriðum málsins og þar með töldu innihaldi bréfa sem farið hafa á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Nauðsynlegt sé að fram geti farið opin og lýðræðisleg umræða sem liður í stefnumótun til framtíðar. Því verði ekki trúað að óreyndu að svo sé komið að erlend herseta um ókomna tíð og óháð aðstæðum sé orðin markmið í sjálfu sér, en svo mætti ætla af framgöngu stjórnarflokkanna og viðbrögðum fleiri aðila.
„Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur einsýnt að Íslendingar eigi að ganga til þessara viðræðna með það að markmiði að takast á við þær breytingar sem við augljóslega stöndum frammi fyrir. Ekki síst þarf að ræða hvernig staðið verði að eflingu atvinnulífs á Suðurnesjum og hvernig tryggt verði að viðskilnaður Bandaríkjamanna í umhverfislegu tilliti verði sómasamlegur, en það er kunnara en frá þurfi að segja að hersetunni hefur fylgt mikil mengun svæða víða um land.
Það er úrelt viðhorf að berjast fyrir óbreyttu ástandi. Verkefnið er að horfast í augu við veruleikann og semja um hvernig þessar breytingar fara fram, enda fagnaðarefni í sjálfu sér ef unnt er að draga úr útgjöldum til hermála hér á landi sem annars staðar og að sá tími skuli nú í sjónmáli að erlendur her hverfi með öllu úr landinu," segir í ályktuninni.