Miklar umræður urðu um stöðu viðræðnanna milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um varnarsamninginn á fundi sem haldinn var í utanríkismálanefnd í dag að ósk fulltrúa stjórnarandstöðuflokka. Einnig urðu miklar umræður, undir liðnum önnur mál, um þær deilur sem upp eru komnar um lögsögu í máli varnarliðsmannsins sem ákærður hefur verið fyrir tilraun til manndráps í Hafnarstræti.
Nefndarmenn eru áfram bundir trúnaði um þær upplýsingar sem fram koma á fundum nefndarinnar. Sólveig Pétursdóttir, formaður nefndarinnar, segir að staðfest hafi fengist með fundinum, að ekkert nýtt væri í stöðunni í viðræðunum milli Íslendinga og Bandaríkjamanna sem kallaði á fund í nefndinni, en hann var haldinn að kröfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar.
Sólveig sagði að utanríkisrráðherra hafi eytt nokkrum tíma í að rifja upp atriði, sem áður höfðu komið fram á tveimur fundum sem haldnir voru sérstak lega um þetta mál, m.a. vegna þess að það var ekki sama fólkið sem setið hafði alla fundi nefndarinnar.
Á fundinum var einnig rætt um þá deilu sem upp hefur komið vegna bréfs ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins til ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis varðandi lögsögu í máli varnarliðsmannsins, sem ákærður hefur verið fyrir tilraun til manndráps í Hafnarstræti.
Aðspurð um þetta sagði Sólveig að ákaflega óheppilegt hefði verið að það bréf færi í opinbera umræðu. Málið tengdist á engan hátt þeim viðræðum sem nú færu fram um varnarsamninginn.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs, segir að á fundinum hafi utanríkisráðuneytið upplýst sína hlið málsins hvað varðar lögsögu í máli varnarliðsmannsins. Aðspurður hvort þær hefðu á einhvern hátt breytt skoðun hans á þessu máli svaraði hann því játandi.
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarnnar, segist hafa komið þeirri afstöðu flokksins á framfæri á fundinum, að íslenska utanríkisþjónustan færi skipulega í að leita stuðnings meðal vinaþjóða innan Atlantshafsbandalagsins til að koma sjónarmiðum Íslendinga betur á framfæri við bandarísk stjórnvöld vegna stöðunnar sem upp er komin í viðræðum um varnarsamninginn.