Breyting á varnarsamstarfi mun færa Ísland nær Evrópu

Grein eftir Val Ingimundarson, lektor við Háskóla Íslands, um viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framtíð varnarsamstarfsins birtist í dagblaðinu International Herald Tribune í dag. Í fyrirsögn greinarinnar kemur fram að samskipti Íslands og Bandaríkjanna séu við frostmark vegna bandarískra herþotna og í greininni segir frá því að Bandaríkjamenn hafi ákveðið að senda allar fjórar herþotur varnarliðsins frá Íslandi. Farið er yfir gang viðræðnanna og yfirlýsingar Davíðs Oddssonar um að engin ástæða sé fyrir bandarískar hersveitir að vera áfram í landinu ef ekki komi fram skýr skuldbinding Bandaríkjanna um að halda uppi vörnum í landinu.

Í lok greinarinnar segir Valur:

„Ef Bandaríkjamenn neita að endurskoða ákvörðun sína gæti Ísland þurft að líta til annarra Evrópuríkja vegna varnarmála sinna, jafnvel þótt forsætisráðherra hafi opinberlega lýst sig andsnúinn þeim möguleika. Vegna smæðar þjóðarinnar er það óraunhæfur kostur að setja á fót íslenskan her. Vinstrimiðjumenn myndu fagna breytingu í átt til Evrópusambandsins. En fyrir hægrimenn, sem hafa stutt Atlantshafssamstarfið áratugum saman, yrði það mikið áfall.

Ef deilan leiðir til uppsagnar varnarsamningsins mun það vafalaust hafa mikil áhrif á stefnu Íslands gagnvart Bandaríkjunum og NATO og myndi færa Ísland nær því sem Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, kallaði með fyrirlitningu gamla Evrópa.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: