Sendiherra Japans á Nýja-Sjálandi viðurkennir í samtali við þarlent dagblað að Japanar tengi erlenda fjárhagsaðstoð við stuðning innan Alþjóðahvalveiðiráðsins við hvalveiðar Japana. „Ef við eigum að geta varið okkar afstöðu verðum við að sannfæra vini okkar," segir Masaki Saito við blaðið Dominion Post í Wellington. „Við viljum taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi ... og við þurfum aðstoð og skilning frá öðrum ríkjum. Í því ljósi er fjárhagsaðstoð mjög góð leið til áhrifa svo þeir geti stutt okkar afstöðu almennt, þar á meðal hvalveiðar," segir sendiherrann.
Grænfriðungar hafa brugðist hart við. AP fréttastofan hefur eftir grænfriðungnum Sarah Duthie að það komi á óvart að Japanar skuli viðurkenna það opinberlega að þeir borgi fyrir atkvæði lítilla og fátækra ríkja í Alþjóðahvalveiðiráðinu. „Ég er undrandi á að embættismaður skuli segja þetta svo blátt áfram því þetta er ekki viðunandi aðferð í alþjóðlegum stjórnmálum," sagði hún. „Þetta er einfaldlega ekki viðunandi aðferð til að ráða örlögum hvalastofna heimsins," sagði hún
Saito sagði að fjöldi vísindarannsókna benti til þess að margir hvalastofnar hefðu náð sér það vel að hægt væri að nýta þá og aðeins ætti að friða nokkrar hvalategundir.