Forstöðumaður skrifstofu AP-fréttastofunnar í London hefur beðið Björn Bjarnason dómsmálaráðherra afsökunar á mistökum sem gerð voru við vinnslu fréttar um þá skoðun Björns að Íslendingar eigi að koma sér upp eigin varnarsveitum.
Fram kemur á heimasíðu Björns að athyglin vegna fréttar AP-fréttastofunnar um erindi hans í september 1995 um varnarmál og nauðsyn þess að Íslendingar litu í eigin barm við gæslu öryggis síns hafi komið honum í opna skjöldu. Björn segist ekki hafa átt annan orðastað við fréttaritara AP en í tölvupósti. Fréttamaðurinn lagði fyrir Björn nokkrar spurningar um afstöðu hans til þátttöku Íslendinga í eigin vörnum og segist Björn hafa vísað til þessa erindis á vefsíðu minni.
„Fréttaritarinn las það og spurði síðan, hvort hann mætti taka úr því setningar og gera þannig viðtal við mig. Ég játti því. Í fréttinni eins og hún var send um heiminn var sagt, að ég hefði „urged” eða hvatt ríkisstjórn Íslands til þess síðastliðinn mánudag, 21. júlí, til að ganga til þess verks að stofna íslenskan her og Íslendingar „should” eða ættu að hafa hann 500 til 1000 manna og gætu myndað allt að 21 þúsund manna varalið.
Gott og vel. Í erindinu hafði ég nefnt þessar tölur og sagt, að þær væru meira en fræðilega raunhæfar, ef til dæmis væri tekið mið af áætlunum stjórnvalda í Lúxemborg. Í fréttinni voru orð mín ekki lengur vangaveltur um það, sem unnt væri, ef vilji væri fyrir hendi, þau voru orðin að tillögu, sem ég hafði lagt fyrir ríkisstjórnina sl. mánudag. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að ég gæti ekki látið við það sitja, að í nafni AP hefði ég staðið þannig að málum. Ég hef aldrei lagt neina slíka tillögu fyrir ríkisstjórnina auk þess sem hún hittist ekki sl. mánudag og ég var raunar að leitast við að taka mér sumarfrí þann dag. Í samtali mínu við forstöðumann AP-skrifstofunnar í London að morgni fimmtudags bað hann mig afsökunar á þessum alvarlegu mistökum og lofaði að senda út leiðréttingu," segir Björn.