Gunnlaugur Konráðsson, hrefnuveiðimaður, segist fagna þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að hefja hrefnuveiðar í vísindaskyni á ný. „Þetta er búið að standa til í 17 ár og mér sýnist að þetta sé loks að koma, enda er að mínu viti fáránlegt að loka á þennan þátt í vistkerfinu. Við vitum ekkert hvað þessir hvalir eru að gera í vistkerfinu umhverfis landið og það er kominn tími til að kanna það," sagði Gunnlaugur.
Hrefnuveiðar voru stundaðar á litlum vélbátum hér við land mestan hluta síðustu aldar. Lengst af voru þessar veiðar mjög takmarkaðar eða nokkrir tugir dýra á ári. Á árunum 1977 til 1985 veiddu Íslendingar um 200 hrefnur á ári en veiðarnar hafa ekki verið stundaðar hér við land frá því hvalveiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins tók gildi árið 1986.
Gunnlaugur segir að veiðarnar hafi verið einskonar heimilisiðnaður tiltölulega fámenns hóps. Þær hafi verið stundaðar á 5-10 bátum, mismunandi eftir árum. Hann segir að hvalveiðibannið á sínum tíma hafi verið rothögg fyrir þá sem veiðarnar stunduðu og þeir hafi aldrei sætt sig við það. Hann segist telja að hrefnuveiðibannið hafi verið brot á mannréttindum því ekki megi skerða atvinnufrelsi manna nema það varði almannahagsmuni.
Gunnlaugur segir að þekkingin á hrefnuveiðum sé enn til staðar, þrátt fyrir langt hlé, og hrefnuveiðimennirnir eigi flestir báta, þótt þeir bátar sem notaðir voru við veiðarnar hér áður verði varla notaðir nú.