Hrefnuveiðimenn fagna ákvörðun um vísindaveiðar

Gunn­laug­ur Kon­ráðsson, hrefnu­veiðimaður, seg­ist fagna þeirri ákvörðun sjáv­ar­út­vegs­ráðherra að hefja hrefnu­veiðar í vís­inda­skyni á ný. „Þetta er búið að standa til í 17 ár og mér sýn­ist að þetta sé loks að koma, enda er að mínu viti fá­rán­legt að loka á þenn­an þátt í vist­kerf­inu. Við vit­um ekk­ert hvað þess­ir hval­ir eru að gera í vist­kerf­inu um­hverf­is landið og það er kom­inn tími til að kanna það," sagði Gunn­laug­ur.

Hrefnu­veiðar voru stundaðar á litl­um vél­bát­um hér við land mest­an hluta síðustu ald­ar. Lengst af voru þess­ar veiðar mjög tak­markaðar eða nokkr­ir tug­ir dýra á ári. Á ár­un­um 1977 til 1985 veiddu Íslend­ing­ar um 200 hrefn­ur á ári en veiðarn­ar hafa ekki verið stundaðar hér við land frá því hval­veiðibann Alþjóðahval­veiðiráðsins tók gildi árið 1986.

Gunn­laug­ur seg­ir að veiðarn­ar hafi verið einskon­ar heim­il­isiðnaður til­tölu­lega fá­menns hóps. Þær hafi verið stundaðar á 5-10 bát­um, mis­mun­andi eft­ir árum. Hann seg­ir að hval­veiðibannið á sín­um tíma hafi verið rot­högg fyr­ir þá sem veiðarn­ar stunduðu og þeir hafi aldrei sætt sig við það. Hann seg­ist telja að hrefnu­veiðibannið hafi verið brot á mann­rétt­ind­um því ekki megi skerða at­vinnu­frelsi manna nema það varði al­manna­hags­muni.

Gunn­laug­ur seg­ir að þekk­ing­in á hrefnu­veiðum sé enn til staðar, þrátt fyr­ir langt hlé, og hrefnu­veiðimenn­irn­ir eigi flest­ir báta, þótt þeir bát­ar sem notaðir voru við veiðarn­ar hér áður verði varla notaðir nú.

mbl.is