Hvalveiðar hefjast í þessum mánuði

Frá blaðamannafundi þar sem væntanlegar hrefnuveiðar voru kynntar.
Frá blaðamannafundi þar sem væntanlegar hrefnuveiðar voru kynntar. mbl.is/Árni Sæberg

Árni M. Mat­hiesen sjáv­ar­út­vegs­ráðherra til­kynnti í dag að hrefnu­veiðar verði hafn­ar í vís­inda­skyni síðar í þess­um mánuði. Í ág­úst og sept­em­ber verða veidd­ar sam­tals 38 hrefn­ur. Í tveggja ára vís­inda­áætl­un sem lögð var fyr­ir Alþjóðahval­veiðiráðið í vor var gert ráð fyr­ir að 100 hrefn­ur, 100 langreyðar og 50 sand­reyðar verði veidd­ar á hvoru ári. Sjáv­ar­út­vegs­ráðuneytið seg­ir að nú hafi verið ákveðið að á þessu ári verði þeim hluta áætl­un­ar­inn­ar sem snúi að hrefnu hrint í fram­kvæmd en veiðarn­ar verði minni en upp­haf­lega var gert ráð fyr­ir, 38 hrefn­ur í stað 100, þar sem veiðarn­ar hefjast seinna á ár­inu en upp­haf­lega áætl­un­in geri ráð fyr­ir.

Árni M. Mat­hiesen sagði á blaðamanna­fund­in­um að eng­ar ákv­arðanir hefðu enn verið tekn­ar um fram­hald hrefnu­veiðanna á næsta ári, né held­ur um veiðar á öðrum hvala­teg­und­um. Hann lagði á það áherslu að veiðarn­ar væru ein­göngu í vís­inda­skyni, þær væru dýr­ar og eng­inn kæmi til með að hagn­ast á þeim fjár­hags­lega, enda myndu þær ekki standa und­ir sér. Hann sagðist ekki geta spáð fyr­ir um hver viðbröð annarra ríkja né um­hverf­is­sam­taka yrðu en vonaði að þau sýndu skiln­ing á mik­il­vægi þessarra veiða, þar sem þær muni vænt­an­lega hjálpa til við ákv­arðana­töku um nýt­ingu á lif­andi auðlind­um hafs­ins.

Veiðarn­ar fara fram á þrem­ur skip­um sem leigð verða til verk­efn­is­ins. Leiðang­urs­stjóri frá Haf­rann­sókna­stofn­un, Gísli Vík­ings­son líf­fræðing­ur, mun stýra fram­kvæmd veiðanna og sýna­töku. Við veiðarn­ar verður beitt ný­leg­um sprengju­skutli sem á að tryggja skjóta af­líf­un dýr­anna.

Sjáv­ar­út­vegs­ráðuneytið seg­ir, að þótt ekki sé um stór­tæk­ar veiðar að ræða sé engu að síður að vissu leyti verið að brjóta blað í sögu hval­veiða við Ísland með þess­ari ákvörðun en eng­ar hval­veiðar hafa verið stundaðar við Ísland síðan 1989. Ljóst sé að al­menn­ur stuðning­ur sé við það hér á landi að hval­veiðar hefj­ist og Alþingi hafi árið 1999 ályktað að hefja skuli hval­veiðar hið fyrsta hér við land.

Ráðuneytið tek­ur sér­stak­lega fram að veiðarn­ar nú teng­ist ekki með nokkr­um hætti þeim fyr­ir­vara sem Ísland gerði við aðild sína að Alþjóðahval­veiðiráðinu. Hefði Ísland getað stundað þess­ar veiðar með sama hætti þótt eng­inn fyr­ir­vari hefði verið gerður. Um sé að ræða hval­veiðar í vís­inda­skyni sem öll aðild­ar­ríki ráðsins hafi ský­laus­an rétt til að stunda sam­kvæmt 8. gr. stofn­samn­ings Alþjóðahval­veiðiráðsins. Þess­um rétti fylgi sú skuld­bind­ing að nýta afurðir hval­anna sem eru veidd­ir. Því sé ljóst að afurðir þeirra hrefna sem veidd­ar verða í ár verði nýtt­ar eft­ir því sem hægt sé.

Þá seg­ir sjáv­ar­út­vegs­ráðuneytið, að meg­in mark­mið rann­sókna Haf­rann­sókna­stofn­un­ar­inn­ar sé að kanna bet­ur hlut­verk hrefnu í vist­kerfi hafs­ins í kring­um Ísland. Ljóst sé að nytja­fisk­ar séu hluti af fæðu hrefnu, en sam­spil fiska og hrefnu í vist­kerf­inu sé lítt þekkt. Í ljósi mik­il­væg­is sjáv­ar­út­vegs fyr­ir Ísland sé nauðsyn­legt að hafa góðar vís­inda­leg­ar upp­lýs­ing­ar um áhrif hrefnu á afrakst­ur nytja­stofna og að geta sett hrefnu með full­nægj­andi hætti inn í fjöl­stofnalíkön. Rann­sókn­irn­ar hafi jafn­framt önn­ur mark­mið, svo sem þætti sem tengj­ast líf­fræði hrefnu og erfðafræði.

All­ur hagnaður af sölu afurðanna mun renna til rann­sókn­a­starfs­ins. Áætlað er að heild­ar­kostnaður verk­efn­is­ins í ár verði um 35 millj­ón­ir króna, þar af er rúm­lega helm­ing­ur vegna veiðanna og sýna­töku.

Veiða á 38 hrefnur í vísindaskyni í ágúst og september.
Veiða á 38 hrefn­ur í vís­inda­skyni í ág­úst og sept­em­ber. mbl.is/​Jim Smart
mbl.is