Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra tilkynnti í dag að hrefnuveiðar verði hafnar í vísindaskyni síðar í þessum mánuði. Í ágúst og september verða veiddar samtals 38 hrefnur. Í tveggja ára vísindaáætlun sem lögð var fyrir Alþjóðahvalveiðiráðið í vor var gert ráð fyrir að 100 hrefnur, 100 langreyðar og 50 sandreyðar verði veiddar á hvoru ári. Sjávarútvegsráðuneytið segir að nú hafi verið ákveðið að á þessu ári verði þeim hluta áætlunarinnar sem snúi að hrefnu hrint í framkvæmd en veiðarnar verði minni en upphaflega var gert ráð fyrir, 38 hrefnur í stað 100, þar sem veiðarnar hefjast seinna á árinu en upphaflega áætlunin geri ráð fyrir.
Árni M. Mathiesen sagði á blaðamannafundinum að engar ákvarðanir hefðu enn verið teknar um framhald hrefnuveiðanna á næsta ári, né heldur um veiðar á öðrum hvalategundum. Hann lagði á það áherslu að veiðarnar væru eingöngu í vísindaskyni, þær væru dýrar og enginn kæmi til með að hagnast á þeim fjárhagslega, enda myndu þær ekki standa undir sér. Hann sagðist ekki geta spáð fyrir um hver viðbröð annarra ríkja né umhverfissamtaka yrðu en vonaði að þau sýndu skilning á mikilvægi þessarra veiða, þar sem þær muni væntanlega hjálpa til við ákvarðanatöku um nýtingu á lifandi auðlindum hafsins.
Veiðarnar fara fram á þremur skipum sem leigð verða til verkefnisins. Leiðangursstjóri frá Hafrannsóknastofnun, Gísli Víkingsson líffræðingur, mun stýra framkvæmd veiðanna og sýnatöku. Við veiðarnar verður beitt nýlegum sprengjuskutli sem á að tryggja skjóta aflífun dýranna.
Sjávarútvegsráðuneytið segir, að þótt ekki sé um stórtækar veiðar að ræða sé engu að síður að vissu leyti verið að brjóta blað í sögu hvalveiða við Ísland með þessari ákvörðun en engar hvalveiðar hafa verið stundaðar við Ísland síðan 1989. Ljóst sé að almennur stuðningur sé við það hér á landi að hvalveiðar hefjist og Alþingi hafi árið 1999 ályktað að hefja skuli hvalveiðar hið fyrsta hér við land.
Ráðuneytið tekur sérstaklega fram að veiðarnar nú tengist ekki með nokkrum hætti þeim fyrirvara sem Ísland gerði við aðild sína að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Hefði Ísland getað stundað þessar veiðar með sama hætti þótt enginn fyrirvari hefði verið gerður. Um sé að ræða hvalveiðar í vísindaskyni sem öll aðildarríki ráðsins hafi skýlausan rétt til að stunda samkvæmt 8. gr. stofnsamnings Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þessum rétti fylgi sú skuldbinding að nýta afurðir hvalanna sem eru veiddir. Því sé ljóst að afurðir þeirra hrefna sem veiddar verða í ár verði nýttar eftir því sem hægt sé.
Þá segir sjávarútvegsráðuneytið, að megin markmið rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar sé að kanna betur hlutverk hrefnu í vistkerfi hafsins í kringum Ísland. Ljóst sé að nytjafiskar séu hluti af fæðu hrefnu, en samspil fiska og hrefnu í vistkerfinu sé lítt þekkt. Í ljósi mikilvægis sjávarútvegs fyrir Ísland sé nauðsynlegt að hafa góðar vísindalegar upplýsingar um áhrif hrefnu á afrakstur nytjastofna og að geta sett hrefnu með fullnægjandi hætti inn í fjölstofnalíkön. Rannsóknirnar hafi jafnframt önnur markmið, svo sem þætti sem tengjast líffræði hrefnu og erfðafræði.
Allur hagnaður af sölu afurðanna mun renna til rannsóknastarfsins. Áætlað er að heildarkostnaður verkefnisins í ár verði um 35 milljónir króna, þar af er rúmlega helmingur vegna veiðanna og sýnatöku.