Alþjóðleg samtök um verndun hvala og höfrunga (WDCS) lýstu undrun sinni og gremju í dag yfir þeirri ákvörðun Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra í morgun að hefja hrefnuveiðar í vísindaskyni.
„Þetta er heiftarlega svekkjandi ákvörðun," sagði Mark Simmonds, vísindafulltrúi WDCS. „Það er engin þörf fyrir vísindalegt dráp af þessu tagi og það eru okkur ákaflega mikil vonbrigði að Íslendingar hafi kosið að fara þessa leið. Hvalveiðar eru óþarfar og grimmdarlegar í augum nútímamanna," sagði Simmonds.
Segir í yfirlýsingu WDCS að samtökin telji áætlun Íslendinga um hvalveiðar í vísindaskyni vera yfirvarp; ætlun þeirra sé að hefja að nýju hvalveiðar í atvinnuskyni.