Bandaríska utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fyrirhuguðum vísindaveiðum Íslendinga á hrefnu er mótmælt og þær harmaðar. Eru Íslendingar hvattir til að endurskoða ákvörðun sína um hvalveiðarnar. Talsmenn ráðuneytisins gagnrýndu veiðiáætlunina einnig harðlega í gær og sögðu þá að veiðarnar kynnu að leiða til viðskiptarefsiaðgerða í samræmi við svonefnt Pelly-ákvæði í bandarískum fiskverndarlögum. Ekki er minnst á refsiaðgerðir í yfirlýsingunni í dag en bandarískir embættismenn segja að þær komi enn til greina. „Það er enn uppi á borðinu," hefur AFP fréttastofan eftir einum embættismanni.
Þegar embættismenn í utanríkisráðuneytinu voru spurðir hvers vegna gefin væri út yfirlýsing um málið tæpum sólarhring eftir að fjallað var um það á blaðamannafundi ráðuneytisins í gær, sögðu þeir að þetta endurspeglaði þá þýðingu sem Bandaríkin telja málið hafa.
„Við vildum að öllum væri ljós afstaða okkar," sagði embættismaðurinn.
Segja vísindaveiðar grafa undan veiðistjórnunarreglum hvalveiðiráðsins
„Bandaríkin harma mjög og lýsa harðri andstöðu við tilkynningu ríkisstjórnar Ísland frá 6. ágúst 2003 um áform um að hefja vísindaveiðar á hvölum," segir í upphafi yfirlýsingarinnar í dag.
Þar segir að vísindaáætlunin, sem gerir ráð fyrir að veiða 38 hrefnur í ár, sé óþörf og muni grafa undan stuðningi íslenskra stjórnvalda við nýjar veiðistjórnunarreglur sem unnið er að innan Alþjóðahvalveiðiráðsins:
„Bandaríkin telja að dráp á hvölum í vísindaskyni sé ekki nauðsynlegt og hægt sé að afla vísindalegra gagna með öðrum hefðbundnum aðferðum," segir í yfirlýsingunni. „Til viðbótar teljum við að vísindaveiðiáætlun Íslendinga grafi undan tilraunum Alþjóðahvalveiðiráðsins til að þróa áhrifaríka og gegnsæja veiðistjórnunaraðferð fyrir hvalveiðar í atvinnuskyni."
„Bandaríkin hvetja Ísland enn á ný að endurskoða þá ákvörðun sína að hrinda þessari áætlun í framkvæmd," segir í yfirlýsingunni. Þar segir einnig að bandarískir embættismenn hafi ítrekað hvatt íslensk stjórnvöld til að hætta við þessi áform eftir að vísindaáætlunin var lögð fyrir hvalveiðiráðið í vor.