Komi flaggskip Grænfriðunga hingað til lands verður það ekki í fyrsta sinn sem samtökin eru hér á ferðinni. Skipið er þó ekki hið sama og kom hingað í jómfrúarferð sinni árið 1978 til að reyna að koma í veg fyrir hvalveiðar Íslendinga.
Kom Rainbow Warrior hingað aftur árið 1979 en skipinu var svo sökkt árið 1985 í höfninni í Wellington á Nýja-Sjálandi af frönsku leyniþjónustunni. Skipið sem nú er væntanlegt hefur verið í notkun frá árinu 1989.
Grænfriðungar voru aftur á ferðinni hér á landi árið 1985 á skipi er nefndist Sirius. Þá var tilefnið tilkynning íslenskra stjórnvalda um að árið eftir myndu Íslendingar hefja hvalveiðar í vísindaskyni. Um svipað leyti kom hingað skip á vegum Sea Shepard-samtakanna, sem rúmu ári síðar með Paul Watson í broddi fylkingar sökktu tveimur hvalbátum í Reykjavíkurhöfn.
Árið 1990 komu Grænfriðungar til Íslands á skipinu Solo til að kynna baráttu samtakanna gegn losun geislavirks úrgangs í sjó. Síðan þá hafa skip Grænfriðunga ekki sést við Íslandsstrendur, eftir því sem næst verður komist, og samtökin ekki haft talsmann hér á landi í nokkur ár.