Dýraverndunarsamtökin Royal Society for the Prevention of Cruelty to Animals, RSPCA, hvetja til þess á vefsíðu sinni að fólk skrifi Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra bréf eða Unni Gunnarsdóttur, skrifstofustjóra á skrifstofu ráðherra og ferðamála. Fólk er hvatt til að mótmæla veiðunum og hvetja þess í stað til að Íslendingar bjóði í auknum mæli upp á hvalaskoðun.
Unnur segir í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins ekki hafa fengið tölvupóst með mótmælum frá því íslensk yfirvöld ákváðu að hefja hvalveiðar að nýju. Í þá tíu mánuði sem hún hefur gegnt starfi sínu í ráðuneytinu segist hún hafa fengið á bilinu 20 til 30 tölvupóstsskeyti þar sem einstaklingar lýsa yfir vandlætingu sinni á því að Íslendingar séu að ígrunda að hefja hvalveiðar og segist ekki hafa hug á að heimsækja slíkt land.
Unnur segir að samgönguráðuneytið móti ekki stefnu Íslendinga í hvalveiðum og því sé það ekki rétti aðilinn til að koma á framfæri mótmælum við. Hún segir að yfirleitt sé slíkum tölvupósti ekki svarað þar sem hann innihaldi oftast nær eingöngu yfirlýsingar einstaklinga, sem langflestir séu að skrifa frá Bretlandi.
Fréttavefur Morgunblaðsins hafði sambandi við sjávarútvegsráðuneytið en ekki reyndist unnt að fá upplýsingar um hvort mikið hefði borið á mótmælum í tölvupósti þangað.
Hvalavinir mótmæltu fyrirhuguðum hvalveiðum Íslendinga með því að safnast saman á Trafalgar-torgi í Lundúnum. Tony Banks, þingmaður Verkamannaflokksins, tók þátt í mótmælunum og sagði í samtali við BBC að rök Íslendinga væru „fáránleg“. „Þetta eru hvalveiðar í hagnaðarskyni, Íslendingar eru að misnota orðið vísindi til að slátra skepnum,“ bætti ráðherrann við.