Flaggskip umhverfisverndarsamtakanna Greenpeace, Rainbow Warrior, er væntanlegt til Íslands síðar í mánuðinum vegna fyrirhugaðra hrefnuveiða Íslendinga í vísindaskyni.
Frode Pleym, talsmaður Greenpeace í Osló, sagði við Morgunblaðið að markmið heimsóknarinnar væri að kynna sér viðhorf Íslendinga og koma á framfæri mótmælum við fyrirhuguðum veiðum. Ekki væri ætlunin að standa fyrir sérstökum mótmælaaðgerðum.
Á vefsíðu Greenpeace, eða Grænfriðunga eins og samtökin hafa gjarnan verið nefnd hér á landi, kemur fram að Rainbow Warrior hafi verið á leiðinni til Grikklands þegar íslensk stjórnvöld kynntu áform sín um vísindaveiðarnar. Fljótlega eftir það hafi verið ákveðið að snúa skipinu til Íslands.
"Við höfum breytt okkar starfsháttum frá þeim tíma þegar samtökin reyndu að koma í veg fyrir hvalveiðar Íslendinga. Engin áform eru uppi um aðgerðir á sjó þegar veiðarnar eiga að hefjast heldur ætlum við fyrst og fremst að kynna okkur skoðanir Íslendinga, jafnt almennings sem yfirvalda. Við höfum sett stefnuna á Ísland en ef við finnum að enginn áhugi er á að fá okkur þá komum við ekki og höldum bara áfram okkar baráttu með öðrum hætti. Þetta verður endanlega ákveðið á næstu dögum en á meðan er skipinu siglt áfram til ykkar. Ef og þegar við komum verður skipið opið hverjum þeim sem vill koma um borð og kynna sér okkar sjónarmið," segir Pleym og vonast til að Grænfriðungar nái fundi með Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra og ýmsum stofnunum og samtökum hér á landi, m.a. Hvalaskoðunarsamtökum Íslands. Hann segir Grænfriðunga ekki ennþá hafa sett sig í samband við nein samtök hér á landi en búist er við að æðsti yfirmaður samtakanna, Gerd Leipold, verði með í för. Hann stóð í brúnni þegar skip með sama nafni kom til Íslands fyrir 25 árum og reynt var að stöðva hvalveiðar Íslendinga.