Rainbow Warrior, flaggskip umhverfisverndarsamtakanna Greenpeace, er á leið til Íslands. Að sögn Frode Pleym, talsmanns samtakanna í Osló, var ákveðið að halda til Íslands þegar fregnir af fyrirhuguðum vísindaveiðum Íslendinga á hrefnu bárust. Skipið var þá á Miðjarðarhafinu á leið til Grikklands.
Að sögn Pleym hafa Grænfriðungar í hyggju að kynna Íslendingum sjónarmið sín en ekki að reyna að koma í veg fyrir hvalveiðar með beinum aðgerðum. Annað skip Greenpeace með sama nafni var sent til Íslands árin 1978 og 1979 til að reyna að trufla hvalveiðar.
Geld Leipold, æðsti yfirmaður Grænfriðunga, verður með í för Rainbow Warrior til Íslands en talsmenn samtakanna vonast til þess að ná fundi Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á meðan þeir dveljast hér á landi.