Helgi Ágústsson, sendiherra í Washington, og Guðni Bragason sendifulltrúi áttu í gær fund með embættismönnum bandaríska utanríkisráðuneytisins þar sem þeir komu á framfæri mótmælum vegna rangfærslna í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 7. ágúst. Í tilkynningu ráðuneytisins var því haldið fram að Íslendingar hefðu ekki lagt fram niðurstöður vísindaveiða sem stundaðar voru árin 1986-89.
"Í dag [í gær] áttum við fund með embættismönnum frá [bandaríska] utanríkisráðuneytinu þar sem komið var á framfæri mótmælum okkar vegna rangrar fullyrðingar í yfirlýsingu bandaríska utanríkisráðuneytisins um vísindaveiðarnar. Okkur þótti nauðsynlegt að leiðrétta þessar fullyrðingar og var það meðtekið af utanríkisráðuneytinu," segir Guðni Bragason, sendifulltrúi í íslenska sendiráðinu í Washington.
Sendiráðinu berst töluverður fjöldi tölvuskeyta og símtala vegna vísindaveiðanna.