Tveir bátar halda á hrefnuveiðar

Hrefnubáturinn Sigurbjörg BA 155, sem hélt til veiða í gærkvöldi.
Hrefnubáturinn Sigurbjörg BA 155, sem hélt til veiða í gærkvöldi. mbl.is/Hafþór

Hval­veiðibát­ur­inn Njörður lagði af stað frá Kópa­vogs­höfn á fjórða tím­an­um í dag, en Njörður er ann­ar tveggja báta sem taka þátt í vís­inda­veiðum á hrefnu í ág­úst og sept­em­ber. Tveir bát­ar fylgja Nirði eft­ir, Eld­ing II og Gest­ur. Guðmund­ur Har­alds­son, skip­stjóri á Nirði, sagði að hóp­ur frá AP-frétta­stof­unni væri um borð í Eld­ingu II en vissi ekki hverj­ir væru um borð í Gesti. Hann sagði ekki hægt að hrista skip­in af sér þar sem þau væru stærri og afl­meiri en Njörður. “Við verðum bara að una því meðan þeir elta okk­ur.”

Spurður sagði Guðmund­ur að fólkið um borð í skip­un­um tveim­ur vissi af því að mælst væri til þess að það héldi sig í einn­ar sjó­mílu fjar­lægð ef það yrði vitni af veiðum. “Okk­ur er hins veg­ar sagt að láta ekki ná mynd­um af okk­ur þegar við veiðum, hvort sem það er míla eða hálfmíla. Við vit­um held­ur ekki hvort þeir hlíta þess­um til­mæl­um. Við ætl­um því ekk­ert að gera meðan þeir eru yfir okk­ur, en stefn­um eitt­hvað út í Faxa­flóa.” Guðmund­ur sagði ekki ljóst hvenær haldið yrði til baka.

Hval­veiðibát­ur­inn Sig­ur­björg lagði úr höfn í gær­kvöldi, en báðir bát­an­ir hafa orðið var­ir við hrefnu. Skipið Hall­dór Sig­urðsson frá Ísaf­irði hyggst einnig halda til hrefnu­veiða. Um borð í Hall­dóri Sig­urðssyni feng­ust þær upp­lýs­ing­ar að beðið væri eft­ir veður­spánni, en hugs­an­lega yrði lagt af stað í kvöld. Stefnt er að því að veiða 38 hrefn­ur í ág­úst og sept­em­ber.

mbl.is