Rainbow Warrior, flaggskip umhverfisverndarsamtaka Grænfriðunga, er væntanlegt til Íslands síðar í mánuðinum vegna hrefnuveiða Íslendinga í vísindaskyni. Grænfriðungar hafa nokkrum sinnum komið með skip sín hingað til lands í gegnum árin og af ýmsu tilefni.
Flaggskipið Rainbow Warrior, þó ekki hið sama og nú er á ferð, kom hingað til lands í jómfrúrferð sinni árið 1978. Í júní 1979 kom skipið aftur og dvaldi með tuttugu manna áhöfn við höfnina í Reykjavík. Eftir að skipverjar höfðu reynt að hindra veiðar íslenskra hvalveiðiskipa krafðist Hvalur hf. lögbanns á hindrunaraðgerðir Grænfriðunga í íslenskri efnahagslögsögu. Fallist var á lögbannið en þann 18. ágúst hafði áhöfn Rainbow Warrior það bann að engu og hindraði Hval 7 í að skjóta tvo reyðarhvali um 75 sjómílur suðvestur af Reykjanesi. Grænfriðungar höfðu farið í gúmmíbát frá Rainbow Warrior og héldu sig á milli hvalanna og hvalbátsins, svo ekki var hægt að skjóta hvalina. Varðskipið Ægir var þá sent á staðinn.
Í fyrstu sinnti áhöfn breska skipsins hvorki skipunum varðskipsins um að stöðva eða draga gúmmíbátinn til baka. En er áhöfn Rainbow Warrior sá að varðskipið mannaði bát, stöðvaði hún skip sitt og gúmmíbátur Grænfriðunga hvarf til skips síns. Varðskipið sendi þá fjóra menn um borð í Rainbow Warrior og lokuðu þeir loftskeytastöð skipsins. Það var síðan dregið til Reykjavíkur og hafði þá aðalgúmmíbátur hvalaverndarmanna verið tekinn um borð í varðskipið.
Sex árum síðar var Rainbow Warrior sökkt í höfninni í Wellington í Nýja-Sjálandi af frönsku leyniþjónustunni.
Grænfriðungar boðuðu komu sína aftur árið 1986, til að halda uppi mótmælum gegn kjarnorkuvígbúnaði, er leiðtogafundur stórveldanna var haldinn í Reykjavík. Skip Grænfriðunga, Sirius, kom hingað til lands 11. október, en var meinað að leita hafnar í Reykjavík.
Í Morgunblaðinu 11. október 1986 er haft eftir Jóni Helgasyni, þáverandi dómsmálaráðherra, að Grænfriðungum hafi verið sagt að Íslendingar hefðu ekkert á móti komu þeirra, en sömu reglur giltu fyrir þá og aðra sem leituðu eftir plássi í Reykjavíkurhöfn á meðan á leiðtogafundinum stæði.
Daginn eftir lét Sirius úr höfn í Hafnarfirði og sigldi í átt til Reykjavíkur. Þyrla Landhelgisgæslunnar var umsvifalaust send af stað til að fylgjast með ferðum skipsins og þegar það reyndi að sigla inn fyrir hafnarmörk stöðvuðu varðskipin Týr og Óðinn för þess. Um borð í skipinu voru 14 skipverjar og myndatökufólk frá Visnews-fréttastofunni. Ætlun Grænfriðunga var að sigla inn fyrir hafnarmörkin og festa borða á skipið þar sem á stæði: "Veröldin krefst þess að samið verði um tilraunabann."
Varðskipið Týr sigldi upp að hlið Siriusar og strukust skipin saman. Bógur varðskipsins Óðins var lagður að Siriusi og stukku 12 varðskipsmenn um borð og tóku skipið. Óðinn og Sirus sigldu út í Stakksfjörð og þar var skipið látið liggja þar til leiðtogafundinum lauk rúmum sólarhring síðar.
Árið 1990 komu Grænfriðungar til Íslands á skipinu Solo til að kynna baráttu samtakanna gegn losun geislavirks úrgangs í sjó. Samskipti þeirra og Íslendinga voru á friðsamlegu nótunum í það skipti.