Lítið er um afla enn sem komið er á hvalveiðiskipinu Nirði en að sögn Guðmundar Haraldssonar skipstjóra er hvalaskoðunarbátunum Gesti og Eldingu II siglt svo nærri skipinu að ókleift er að beita veiðitækjum. „Við höfum ekkert getað gert [...] það er einn hérna tíu metra frá mér núna,“ sagði Guðmundur og bætti því við að erlendir fjölmiðlar sýndu málinu mikinn áhuga og fréttamenn nokkurra erlendra fréttastofa væru um borð í hvalaskoðunarbátunum.
„Þeir eru búnir að vera að sniglast í kringum okkur og hafa elt okkur alveg síðan við fórum úr Kópavogi,“ sagði Guðmundur en ekki kvaðst hann hafa rætt við fréttamennina síðan lagt var í haf. Töluvert er af hrefnu á miðunum, að sögn Guðmundar. „Við vorum að sjá hérna talsvert af hrefnu en þeir voru bara komnir ofan í okkur um leið og við fórum eitthvað að snúast þannig að við gerðum ekki neitt. Það er lagt fyrir okkur að skjóta ekki með þá hérna í kringum okkur.“