Engin hrefna hefur veiðst í morgun. Hvalveiðiskipið Halldór Sigurðsson er að veiðum og segir Sverrir Halldórsson leiðangursstjóri að skilyrði séu ágæt en þó hafi lítið sést til hrefnunnar. Báturinn var við veiðar fram á kvöld í gær, lá kyrr í nótt og svo var hafist handa við leitina á ný í morgun. Droplaug Ólafsdóttir, leiðangursstjóri hvalveiðiskipsins Njarðar, vildi ekki gefa upp hvort skipið væri á sjó eða við land.
Sverrir segir engar aðgerðir í gangi akkúrat núna heldur sé verið að leita. Droplaug segir að Njörður hafi komið í land í gærkvöldi og að ekkert sé í rauninni að frétta. Hún segir skilyrði til veiða ágæt. Hún vildi ekki gefa uppi hvort áhöfnin væri í landi eða á sjó. „Það er búið að skrifa þessa frétt svo margoft. Við höfum ekki getað sinnt okkar starfi vegna símhringinga og fjölmiðlafólks. Þetta er orðinn hálfgerður skrípaleikur. Við ætlum að fá að vinna vinnuna okkar í friði og ég hugsa að fólk hafi alveg fengið sig fullsatt af öllum fréttunum í gær,“ segir Droplaug.