„Við höfum verið að fá ansi mikið af tölvupósti," segir Ólafur Sigurðsson, sendifulltrúi í íslenska sendiráðinu í Lundúnum, en í tölvupóstinum sem hann vísar til er verið að mótmæla hvalveiðum Íslendinga.
Guðni Bragason, sendifulltrúi í Washington, sagði tölvuskeyti halda áfram að berast sendiráðinu en ekki hafi komið til neinna mótmæla í Washington í gær þótt slíku hefði áður verið "hótað" í .
Ólafur Sigurðsson segir að stærsti hluti tölvupóstsins sem borist hafi um helgina og síðustu daga sé staðlaður texti sem fenginn sé af heimasíðu umhverfisverndarsamtakanna Greenpeace. Textinn sé stílaður á sendiherra Íslands í Washington, Helga Ágústsson, og sé skeytið fyrst og fremst sent til sendiráðsins í Washington en afrit af því sent til íslenska sendiráðsins í Lundúnum og íslenska sendiráðsins í Berlín. Sendiráðið í London leitast þó við að svara þeim skeytum sem eingöngu séu send þangað.
"Sendingum til okkar hefur farið fjölgandi en þær eru þó ekki það miklar að við ráðum ekki við þær með góðu móti."
Í mótmælaskeytinu, sem upphaflega kemur frá Greenpeace-samtökunum, segir m.a. að undirritaður sé hneykslaður á þeirri skammsýnu og óheiðarlegu ákvörðun Íslendinga að hefja hvaleiðar undir því yfirskini að verið sé að safna vísindalegum gögnum. "Þúsundir vísindamanna rannsaka hvali um allan heim án þess að drepa þá. Að kalla þetta vísindaveiðar er misnotkun á hugtakinu vísindi - raunveruleg ástæða aðgerðanna er að afla hvalkjöts og ryðja brautina fyrir frekari veiðum." Því er beint til sendiherrans að hann komi mótmælunum áleiðis til íslenskra stjórnvalda, en í lok textans er farið fram á að Íslendingar hætti nú þegar öllum hvalveiðum.