Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var spurður út í hvalveiðar Íslendinga á blaðamannafundi, sem haldinn var í kjölfar ráðstefnu IASCP um málefni norðurslóða í Alaska fyrr í vikunni. Opinberri heimsókn forsetans til Alaska lauk á miðvikudag.
Ólafur Ragnar segir að einungis einn fréttamaður hafi spurt um hvalveiðarnar og hvort Íslendingar væru ekki að veiða í viðskiptaskyni. Hann segir að hann hafi svarað því til að veiðarnar væru eingöngu vísindalegar og útskýrt mikilvægi þeirra fyrir Íslendinga.
Að sögn Ólafs Ragnars hafa Alaskamenn sýnt hvalveiðum Íslendinga mikinn áhuga, enda er hvalurinn ríkur þáttur í þeirra lífríki. Þá segir hann að fjölmiðlar hafi fjallað töluvert um veiðarnar.
Ólafur Ragnar segist ekki hafa orðið var við gagnrýni Alaskamanna á hvalveiðarnar í heimsókn sinni, hvorki opinberlega né í þeim einkasamtölum sem hann átti. Það hafi einungis verið þessi eina spurning á blaðamannafundinum.