Clive Stacy, sem sér um ferðir þúsunda Breta hingað til lands með ferðaskrifstofunni Arctic Experience í Bretlandi, segir hrefnuveiðar vera áfall fyrir ferðaþjónustuna. "Við höfum séð um ferðir til Íslands í 18 ár, og við erum stærsta ferðaskrifstofan í Bretlandi með Íslandsferðir. Í ár koma tæplega átta þúsund manns til landsins á okkar vegum. Nýhafnar hvalveiðar hafa strax áhrif á starf okkar, fólk hringir og afpantar ferðir. Á því leikur enginn vafi að hvalveiðarnar hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Meirihluti Breta er á móti hvalveiðum, og mörg ár tekur að laga skaðann, sem unninn hefur verið á ímynd Íslands."
Að sögn Stacy mun fyrirtæki hans nú þurfa að fá staðfest hjá öllum samstarfsaðilum hér á landi að fyrirtæki þeirra séu á móti hvalveiðum. "Ef þau undirrita ekki yfirlýsinguna munum við ekki halda samstarfi við þau áfram. Það er eina leiðin fyrir okkur til þess að geta fullyrt við okkar viðskiptavini, að með ferð til Íslands séu þeir ekki að styðja hvalveiðar," sagði Stacy.
"Við áttum von á hópnum nú í byrjun september, en nú fengum við tölvupóst frá forsvarsmönnum útgáfunnar, sem aflýsa komu hópsins. Ástæðan er sögð vera hvalveiðar Íslendinga. Útgáfan sé umhverfissinnuð, og vilji ekki kynna fyrir lesendum sínum staði sem styðji hvalveiðar."
"Hvalveiðarnar skaða ekki einungis ferðaþjónustuna sjálfa, heldur einnig ímynd landsins og tækifæri til umfjöllunar á erlendum vettvangi. Ég vil hins vegar ítreka að málið snýst ekki aðeins um hvort við megum veiða hval eða ekki, heldur um viðskiptahagsmuni ferðaþjónustunnar," segir Knútur.