Hvalaskoðun hefur verið í miklum blóma á Skjálfanda í sumar en á Húsavík eru starfrækt tvö hvalaskoðunarfyrirtæki; Hvalaferðir og Norðursigling. Börkur Emilsson, framkvæmdastjóri Hvalaferða, og Hörður Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar, hafa báðir orðið varir við aukna aðsókn í hvalaferðir en það má gera ráð fyrir að á þriðja tug þúsunda manna fari í hvalaskoðunarferðir frá Húsavík á hverju sumri. Að sögn þeirra eru það mestmegnis útlendingar sem sækja í slíkar ferðir og þó virðast vinsældir hvalaskoðunar vera að aukast meðal Íslendinga.
Börkur segir líklegt að í lok sumars hafi Hvalaferðir farið með í kringum 5000 manns í hvalaskoðun en það er einu þúsundi meira en í fyrra. "Það hefur því gengið mjög vel. Við byrjuðum 15. maí og verðum fram til 10. september. Við erum með fjórar ferðir á dag í einum gömlum eikarbáti sem tekur 43 farþega."
Að sögn Harðar hefur verið talsvert meiri aðsókn í hvalaskoðunarferðir en í fyrra og þá sérstaklega þegar leið á sumarið. Norðursigling er með fjórar brottfarir á dag mest allt sumarið en þó aðeins þrjár eftir að skyggja tekur. "Það fer bara eftir aðsókn hversu marga farþega við tökum en við erum með fjögur skip og getum tekið upp í 220 farþega. Í fyrra voru það 22.000 manns sem sigldu með okkur yfir sumarið. Það er hins vegar minna af hvölum en í fyrra. Við gerum aðallega út á hrefnur og þær hafa verið færri," segir Hörður.
Þótt Húsavík sé einn vinsælasti hvalaskoðunarstaður á landinu er hægt að komast í hvalaskoðunarferðir frá fleiri stöðum, s.s. frá Reykjavík, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Dalvík og Ólafsvík.