Samið hefur verið um að Hafrannsóknastofnunin sjái um DNA-greiningu á norskri hrefnu fyrir norsku fiskistofuna. Um er að ræða einstaklingsgreiningu sem hægt er að nota til þess að staðfesta að hrefnan hafi tilheyrt ákveðnum stofni og sé örugglega norsk að uppruna.
Mun Hafrannsóknastofnunin sjá um greiningu á öllum veiddum hrefnum í Noregi, að því er fram kemur á vefsetrinu skip.is. Upplýsingar um veiddar hrefnur verða settar inn í gagnagrunn sem starfræktur hefur verið frá árinu 2001 og með DNA-greiningunni verður hægt að segja til um það hvort umrætt dýr er af kvóta Norðmanna eða hvort það komi annars staðar frá.
Með þessum upprunavottorðum er vonast til að hægt verði að greiða fyrir sölu á hrefnukjöti til Japans. Sömuleiðis er vonast til þess að hægt verði að safna gögnum sem muni auðvelda mönnum að leggja mat á stærð hrefnustofnsins við Noreg.