Félagsmenn umhverfisverndarsamtakanna Greenpeace eru væntanlegir til landsins í næstu viku til þess að mótmæla vísindaveiðum Íslendinga á hrefnu. Samtökin segja að skip þeirra, Rainbow Warrior, haldi í nokkrar hafnir við landið þar sem veiðunum verður mótmælt. Frode Pleym, talsmaður Grænfriðunga, segist gera sér vonir um að félagsmenn nái að sannfæra Íslendinga um að hætta veiðum.
"Vonandi tekst okkur að efla sjálfstraust nægilegra margra til þess að mótmæla veiðum," segir ennfremur í yfirlýsingu Gerd Leipold, sem situr í framkvæmdastjórn Grænfriðunga. "Það verður að senda íslenskum stjórnvöldum skýr skilaboð, skilaboð á heimsvísu og einnig skilaboð frá Íslendingum um að slíkar veiðar eigi ekki að líðast," segir Leipold.
"Hvalveiðar eru hluti af fortíð Íslendinga og ættu að vera það áfram... Hvalaskoðun er miklu arðbærari atvinnuvegur heldur en hvalveiðar og þeir ættu því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að vernda hvali í höfum," segir Leiopold.